Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 124
122
Aðalgeir Kristjánsson
þeirra elstur. Þetta er þeim mun merkilegra sem Gísli Súrsson var bróðir
formóður Snorra og Þorgrímur goði forfaðir.
Rétt er að taka fram að fleiri munu þau skáld sem Snorri nefnir ekki í
Skáldskaparmálum en hin sem hann lætur að einhverju getið og voru uppi
samtíða. Hins vegar er kveðskapur sá sem Gísli Súrsson lét eftir sig þeirrar
gerðar samkvæmt sögunni að hann hefði sómt sér með prýði í því hlutverki
sem Snorri stefndi að með tilvísunum til forns skáldskapar í verki sínu.
Höfundur vísnanna, hver sem hann var, hafði góða þekkingu á því sem til
þurfti. Því hlýtur sú spurning að vakna hvort Snorri hafi ekki þekkt
kveðskap Gísla. í ætt Snorra goða var haft á orði að konur væru margspakar
og óljúgfróðar og því flestum ólíklegri að týna niður fornum kveðskap. Var
kveðskapur Gísla Súrssonar engu að síður svo úr lagi genginn að Snorri teldi
sér ekki fært að vitna til hans eða er orsakanna að leita á öðrum vettvangi?
Hér fer sem oftar þegar spurt er mikilvægra spurninga að svörin verða í
öfugu hlutfalli við spurninguna. Því má þó við bæta að misræmi sögu og
vísna bendir til að sami höfundur hafi ekki verið að verki í báðum greinum
sögunnar.
Upphaf Gísla sögu gerist í Noregi. Þar koma tvær konur við sögu sem
heita Ingibjörg og Þórdís. Báðar eiga þær það sameiginlegt að fá ekki að eiga
þá menn sem þær leggja hug á. Ingibjörg lýsti því yfir að hún hefði fremur
kosið Gísla Þorkelsson fyrir mann, en Ara eldri bróður hans. Þórdís Súrs-
dóttir var í þingum við Kolbjörn, en talið að Bárður fífldi hana. Theodore M.
Andersson bendir á að það gangi eins og rauður þráður gegnum Gísla sögu að
konur þær sem koma við sögu leggi fremur hug á aðra en eiginmenn sína.39
Ritskýrendum Gísla sögu hefir orðið starsýnt á hvernig höfundur notar
ástasambönd og leyndar ástir til að skapa óheillaatburði. Frásagnir Sturlungu
um þau efni eru hrein gullnáma fyrir þá sem vilja kjósa sér rannsóknarefni á
þeim vettvangi. Hér verður ekki lagt til atlögu við svo viðamikið
viðfangsefni, en á það má benda að Peter Foote taldi að Jórunni, systur
Þorvalds Vatnsfirðings, og Þórdísi Súrsdóttur svipaði saman þegar litið væri
til ástamála þeirra. Jórunn var í tygjum við mág sinn, Svein að nafni, en það
varð til þess að Þórður, hálfbróðir Jórunnar, hugðist taka hann af lífi. Sveinn
særðist, en árásarmaðurinn og annar til voru drepnir. Síðar var Jórunn
numin á brott af presti er Magnús hét og er svo að skilja sem henni hafi ekki
verið það á móti skapi.40 Enn sem fyrr er hér á ferð söguefni sem Sturlu
Bárðarsyni var vel kunnugt um.
Á hinn bóginn er Gísla saga dýrðaróður um hve hjónaband Gísla og
Auðar var ástúðlegt og stóðst hverja aðför sem gerð var til að eyðileggja það.
Hvergi er viðhorf höfundar skýrara og eindregnara en þegar trygglyndi
Auðar ber á góma í sögunni.
38 íslenzk fornrit VI, viii.
39 Bonis 1968, 12-14.
40 The Saga of Gisli,l33.