Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 127
Að utan
125
Eiginmaður mátti þó ekki flytja fjármuni konu sinnar af landi brott
nema með hennar samþykki, né nota þá þannig að hætta væri á að þeir
skertust. Ekki er á hinn bóginn ljóst af lögunum hvað það þýddi fyrir konu,
og hver staða hennar var innan heimilis, ætti hún ekki í búi með manni
sínum.
Ekkjur nutu samkvæmt Grágás meiri lagalegra réttinda en aðrar konur og
þá einkum ekkjur landeigenda eða ríkra manna. Þær voru þó flestar undir
hælnum á lögráðanda sínum, sem var nákominn ættingi er gætti hagsmuna
þeirra og ættarinnar (þ.e. sá til þess að eignafærsla milli ætta yrði ekki of
mikil).1 Þetta kemur að nokkru heim við það sem tíðkaðist víða í Evrópu á
þessum tíma. Hins vegar þekkist það sumstaðar í álfunni að ekkjur sem
bjuggu einar nytu ríkara frjálsræðis en konur á íslandi. Shulamith Shahar
segir t.d. í bók sinni The Fourth Estate, að í bændasamfélaginu hafi ekkjur í
landeigendastétt (á Englandi og víðar) verið sjálfstæðari en konur almennt,
jafnvel þótt þær væru eins og aðrir bændur undirokaðar af lénsherrum og
þeirra nótum. Þær voru lausar við stjórnsemi eiginmannsins og annarra
ættingja, einkum ef þær bjuggu ekki með sonum sínum. Þrátt fyrir þetta
segir Shulamith Shahar að margar ekkjur hafi kosið að giftast aftur (Shahar,
Shulamith 1983:238-39). Sennilegasta skýringin er sú að ýmsar konur hafi
hreint ekki treyst sér til að rækta landið einar. Einnig hafi lénsherrar þrýst á
þær að giftast aftur svo þær héldu ábúð á jörðinni, því að margir töldu konur
ekki færar um þennan starfa. Þó voru vitaskuld til konur sem engan bilbug
létu á sér finna og héldu ótrauðar áfram einar á báti (sjá Shahar, Shulamith
1983:238 og Gies, Frances and Joseph 1978:158-59). Hafa ber þó í huga að í
Evrópu var lénsveldi en á íslandi höfðingjaveldi þótt það þróaðist frá og með
11. öld í átt til lénsveldis.
Samkvæmt lögum gátu konur á íslandi verið jarðeigendur. Svigrúm til að
ráðstafa slíkum eignum eða öðrum var á hinn bóginn ætíð háð samþykki
lögráðanda þeirra:
Kona á og eigi að selja land hálft eða meira, byggðan bólstað, án ráði lögráðanda
síns. Nú selur hún minna hlut landsins senn en hálft, og er það rétt, nema hún
seli oftar, svo að landið verði selt hálft eða meira, þótt kaupin sé fleiri en eitt. Þá
á lögráðandi hennar kost að rifta alla landsöluna eða suma, ef hann vill það
heldur. (Grágás 11:419)
Kona á eigi að selja land, hálft byggðan bólstað eða meira, án ráð lögráðanda, né
goðorð, né hafskip, ef hún á. (Grágás 11:174 sbr. Ib:45)
Erfði kona goðorð varð hún að selja það í hendur einhverjum karlmanni
(Grágás Ia:142). Ekki gat hún heldur riðið til þings (alþingis eða
1 Hér að framan var m.a. stuðst við grein Agnesar S. Arnórsdóttur „Viðhorf til kvenna
í Grágás“ sem birtist í Sögnum árið 1986 og ópr. lokaritgerð í sagnfræði við
Háskólann í Bergen (sjá heimildaskrá).