Skáldskaparmál - 01.01.1992, Qupperneq 142
140
Bergljót S. Kristjánsdóttir
Guðmundssonar, íslensku kynlífsbókina. Óttar telur m.a. að Hallgerður og
Gunnar hefðu þurft á nærgætni- og innileikaþjálfun að halda og kemst svo
að orði um samræðisvanda þeirra Hrúts Herjólfssonar og Unnar Marðar-
dóttur:
Unnur leitaði til föður síns Marðar vegna þessara vandamála og ráðlagði hann
henni að skilja við Hrút sem hún gerði. Sennilega hefði verið mögulegt að hjálpa
þeim með útvíkkunartækni og samtalameðferð en Merði var ókunnugt um
það.13
Frá sjónarhóli bókmenntafræðinnar er það auðvitað bagalegt að
persónur skáldverks séu slitnar úr sínu samhengi með þessum hætti og um
þær fjallað sem hvert annað eintak af hómó sapíens, svo ekki sé nú talað um
ef mælikvarðar 20. aldar eru um leið lagðir á hugmyndaheim miðalda eins
og ekkert sé sjálfsagðara. En lesendur hafa auðvitað alltaf notað bækur til
þess brúks sem þeir hafa frekast talið sér henta, og oftast er ekki nema gott
eitt um það að segja. Ég þykist líka vita að Óttar hafi aldrei ætlað sér að
fjalla um íslendingasögurnar á forsendum bókmenntafræðinnar og skrif
hans einkennist kannski á stundum af strákskap. En það breytir ekki því að
túlkandi sagnanna stendur frammi fyrir þeim vanda að þær eru ein helsta
heimild okkar um hugmyndaheim manna, a.m.k. á ritunartíma þeirra, í
sömu mund og þær eru að nokkru eða öllu hugsmíð sagnritara, sem beita
ímyndunarafli og aðferðum skáldskapar, t.d. ýkjum, háði og skopstælingu,
til að segja sögu sem hrífur. Skoði maður frásögn Njálu af belli Hrúts sem
verður fyrir álög Gunnhildar kóngamóður svo mikill að hann fær ekki notið
Unnar konu sinnar (131 og 133), virðist t.d. ekki sjálfgefið að þar sé
stílfærsla minni en í ýmsum sögum sem taldar hafa verið miður raun-
sæilegar, t.d. í Örvar-Odds sögu, þar sem segir af samförum Odds og
Hildigunnar tröllskessu:
Hon leggr hann þá í vöggu hjá risabarninu, ok kvað yfir þeim barngazlur, ok
gerði vel við hann, enn er henni þótti hann óspakr í vöggunni, lagði hon hann í
sæng hjá sjer, ok vafðist utan at honum, ok kom þá svá, at Oddr lék alt þat, er
lysti; gerðist þá harðla vel með þeim ,..14
og heldur síðar í sögunni segir Hildigunnur við Odd:
...þarf ok eigi við þat at dyljast, at ek er með barni, þó þat mætti ólíklegra
þykkja, at þú værir til þeira hluta fœrr, svá lítill ok auvirðilegr sem þú ert at sjá
13 Óttar Guðmundsson. 1990. íslenska kynlífsbókin. Reykjavík, 172
14 Örvar-Odds saga. Fornaldarsögur Norðurlanda. 1886. Valdimar Ásmundsson bjó til
prentunar. Reykjavík, 231.
15 Sama rit, 232.