Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 144
142
Bergljót S. Kristjánsdóttir
finnast báðar frásagnirnar fyndnar en ekki er ótvírætt að sagnritari Reykdælu
sé að gera að gamni sínu. Eyða er í handritinu skömmu áður en falli Skútu er
lýst og með frásögninni af Sigríði kann að vera að sagnritarinn sé að sýna
hverflyndi kvenna og hve illa megi treysta þeim. Oðru máli gegnir hins vegar
um Finnboga sögu en hún hefur hún ýmis skýr einkenni paródíu. Þegar
Finnbogi er kominn með Ragnhildi í garð Hákonar jarls sem hann á x
nokkrum útistöðum við, segir sagan m.a. frá því að jarl kemur á fund
Ragnhildar og er Finnboga hinn reiðasti. Ragnhildur biður honum þá griða.
„Hún sagði að Finnbogi hefði þad vel gert við hana sem mestu varðaði
[breytt letur mitt]“, segir sagan (642). Af tilsvarinu má ráða að víg föður
hennar sé algjört aukaatriði; síðan geta menn, allt eftir innræti, litið svo á að
í því felist yfirlýsing um að Finnbogi hafi verið góður í bólinu ellegar látið
vera að njóta hennar, því að hvortveggi túlkunin virðist rökleg miðað við
frásögnina. Meginniðurstaðan er þó söm: hér er á ferð sagnritari með
stórkarlalegan (‘gróteskan’) húmor og ekki ósennilegt að hann sé beinlínis að
skopstæla sjálfa sagnahefðina líkt og menn skopstældu t.d. hið heilaga orð
biblíunnar á miðöldum.
II
Enda þótt ég hafi aðeins minnst á fátt eitt sem mér finnst máli skipta við
túlkun sagnanna, langar mig nú að leika mér svolítið og taka að endingu
dæmi líkt og í upphafi. Það er löng frásögn úr Svarfdælu sem verður fyrir
valinu. Svarfdæla er að ýmsu leyti sérkennileg, ekki síst vegna þess að hún er
á köflum svo óhugnanleg að hún minnir mann frekar á Manninn með
stálhnefana en Islendingasögur. Hún er ekki varðveitt í heilu líki, til er eitt
skinnblað úr handriti frá 15. öld en annars eru aðeins varðveitt
pappírshandrit runnin frá eftirriti Jóns Erlendssonar; eyður í sögunni eru
margar en í þær hafa skrifarar frá seinni öldum reynt að fylla. Sagan hefur
m.a. að geyma frásögn af fallegri konu sem karlar girnast og er tyftuð verr en
flestar konur aðrar í íslenskum bókmenntum - og það er einmitt hún sem ég
ætla að ræða um. Þar eð sagan er ekki ýkja þekkt endursegi ég meginatriði
frásagnarinnar og bið þá að sýna biðlund á meðan sem kunnugir eru efninu.
Ingvildur fagurkinn heitir konan sem í hlut á, dóttir Ásgeirs rauðfelds, og
frilla Ljótólfs goða að Hofi en hann er helsti andstæðingur Þorsteins
svarfaðar og frænda hans sem sagan fylgir frá upphafi til loka. Systursonur
Þorsteins, Klaufi, sem er berserkur, strengir þess heit að „koma í sömu
rekkju Ingvildi fagurkinn án vilja Ljótólfs goða.“ (1802) Með klækjum tekst
að koma málum svo fyrir að Ásgeir rauðfeldur festir Klaufa Ingvildi. Hún
byggir eina sæng með honum um hríð en þar kemur að fyrir ráðkænsku
hennar og atgöngu bræðra hennar er Klaufi veginn. Til eftirmála eftir hann er
Karl rauði Þorsteinsson. Fær hann því til leiðar komið að Ásgeirssynir