Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 147
Skarðið í vör Skt'ða
145
í öðrum germönskum málum en íslensku er skarð í vör kennt við héra og
kallað héraskarð. Hérinn gat að trú manna skipt um kyn svo að þá gæti verið
á ferðinni ásökun um samkynhneigð.18 Hin skýringin og sú nærtækari er að
Ingvildur sé einfaldlega að lýsa því yfir að með andlitslýti sín - hökuna
brotna og tvær tennur horfnar - sé Skíði lítt hæfur til ásta, samanber það sem
fyrr var sagt um kossinn sem fjórða stig ástarinnar og undanfara samfara. En
hvernig sem því er varið - það eru þeir eiginleikar samanlagðir sem nú hafa
verið nefndir, sem taldir eru undirrót alls ills í frásögninni, og reyndar svo að
friði er ekki endanlega komið á í róstursömum Svarfaðardal fyrr en sú kona
hefur verið brotin að fullu á bak aftur sem yfir þeim býr. Þegar þrautagöngu
Ingvildar er lokið og Karl tekur við búi sínu af Ljótólfi segir sagan loksins:
„Síðan sættust þeir heilum sáttum og héldu vel sína vináttu.“ (1826)
Sé litið á föðurhefnd Karls unga er ljóst að hún er tvíþætt. I fyrsta lagi
drepur hann syni Ingvildar, í öðru lagi selur hann hana mansali, en þættirnir
tveir tengjast með stefinu „Hversu mikið er nú skarð í vör Skíða?“ (1820) -
sem birtist raunar með tilbrigðum. Enda þótt hefndir Karls kunni að orka
sem allt að því hreinræktaður sadismi er spurning hvort ekki á að skilja þær
táknrænum skilningi og þá reyndar líka hversu langt skal ganga í túlkun á
þeim. Hin óhugnanlega frásögn af barnavígunum kallast t.d. þannig á við
fyrri frásagnir sögunnar að Karl vegur syni Ingvildar til að hefna föður síns,
og synirnir eru e.t.v. jafnmargir og ættingjar Karls sem hafa beint eða óbeint
dáið fyrir atbeina Ingvildar. Það má nefnilega ekki aðeins rekja víg Klaufa og
Karls rauða til hennar, heldur einnig dauða Þorsteins svarfaðar. Hann kemur
á gamalsaldri í bjarnarham til bardaga sem hlýst af vígi Klaufa, og leiða má
rökum að því að það dragi hann til dauða. Ingvildur er þá með öðrum
orðum látin kenna þess sem sagnritarinn telur að hún hafi látið aðra kenna.
Eftirtektarverð er lýsingin á Ingvildi þar sem hún situr í túninu meðan
Karl vegur syni hennar. Hún er á serk einum klæða, „faldlaus og hárið bæði
mikið og fagurt" segir sagan (1820). Hvers vegna er hári hennar sérstaklega
lýst á þessum stað? Er verið að stilla fegurðinni andspænis dauðanum til að
sýna hvað af henni hljótist? Er verið að vísa til kraftsins sem einatt er talinn
felast í hárinu? Á frjósamur líkami Ingvildar að mynda andstæðu við
drengina sem gerðir eru höfðinu styttri? Eða er verið að skírskota til þess að
djöfullinn var talinn vera kafloðinn og stundum sagður taka sér bólfestu í
hári fólks?19 Ég læt ykkur eftir að svara því.
Frásögnin af þrælkun Ingvildar skírskotar til fyrri atburða í sögunni ekki
síður en frásögnin af barnavígunum. Ingvildur er á sínum tíma treg til að taka
18 Enzyklopadie des Márchens. Handwörterbuch zur historischen und vergleichenden
Erzáhlforschung. Band 6. 1990. Herausgegeben von Rolf Wilhelm Brednich. Berlin,
New York, 545-46 .
19 Sama rit 343-6; Handwörterbuch des deutschen Aberglaubens. Band 3. Handwörter-
buch zur deutschen Volkskunde. Abteilung I. Aberglaube. 1930-31. Herausgegeb. E.
Hoffmann-Krayer. Berlin und Leipzig, t.d. 1258-1261.