Skáldskaparmál - 01.01.1992, Side 148
146
Bergljót S. Kristjánsdóttir
saman við Skíða sem ber þræls nafn en hefur ekki „til þess ætt eða eðli“ svo
notuð séu orð sögunnar (1800). Skíði hefur þá með öðrum orðum verið
herleiddur og nú fær Ingvildur að reyna á eigin skrokki hið sama og hann, að
hverfa úr frelsi til áþjánar. I áþjáninni er Ingvildur líka barin en barsmíðar
hafa sem kunnugt er verið taldar heppilegar uppeldis- og kennsluaðferðir frá
því er Guðmundur Arason var barinn til bókar og allt fram á okkar daga auk
þess sem þær voru á miðöldum nýttar til að berja djöfulinn og óhreinan anda
úr fólki.20 Ingvildi tekst að standa af sér meðferðina á fyrri ambáttargöngu
sinni. Þegar Karl hittir hana aftur er hún í tötrum en kaupunautar hans segja:
„Við börðum hana aldrei svo að hún vilji vinna fyrir okkur...“ (1823). Eftir
síðari gönguna er hún hins vegar buguð og þá er líkamsfegurð hennar einnig
spillt, hún er kviknakin og alblóðug öll og lýti hennar eflaust ekki síðri en
Skíða.
Finna má sérkennilega athugasemd í millispilinu milli hinna tveggja
ambáttargangna Ingvildar. Þegar Karl hefur flutt hana til skips, látið gera
henni laug og færa henni klæði bætir sagan við að hann hafi gert „hana svo
sæla sem þá hún var sælust" (1823). Ekki er ósennilegt að þetta sé aðeins
kristilegt og pent orðfæri um almenna velsælu en þó kann að vera að hér sé
tvíræðni á ferð. ‘Laugin’ skiptir hér miklu. Karli kann m.ö.o. ekki að hafa
verið efst í huga að láta þrífa af Ingvildi blóð og óhreinindi, heldur að veita
henni skírslu, hreinsa hana af fyrra líferni, - svo að hann gæti sjálfur notið
hennar með góðri samvisku. Með slíkri túlkun mælir t.d. að sagan segir að
Karl hafi sett Ingvildi „hið næsta sér“ þegar hann tekur hana í fyrstu heim
með sér, en það má einnig skilja á tvennan hátt (1820). Sé tvíræðni í
frásögninni er þrælkun Ingvildar tvöföld: hún er ekki aðeins seld mansali
heldur er hún rekkjuþræll Karls. Og þá birtast í nýju ljósi þau orð að hún
hafi máski tortýnt sér af óyndi eftir að Karl skilaði henni til Ljótólfs.
Sögu Ingvildar má þá í sem stystu máli sagt túlka sem eins konar
dæmisögu. Enda þótt í henni birtist ýmis áhrif frá ævintýrasögnum og með
því megi skýra grimmdina sem í henni ríkir, þykir mér þó sem bygging
sögunnar og afstaða hennar til fegurðar kunni eins að vitna um kristin
fræði. Það má þá allt eins líta svo á að af henni lýsi kenning gamla testa-
mentisins „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn“ , sem og orð nýja testamentisins:
„Það sem þér viljið að aðrir gjöri yður, skuluð þér og þeim gjöra.“ Ónefnt er
þá að söguna má lesa sem varúðarorð jafnt til karla sem kvenna. Karlar skulu
gæta sín á þeirri fegurð sem augun ein nema og konur skulu forðast þá örgu
synd súperbíu eða ofdrambið. Karl ungi lætur ekki af að þjaka Ingvildi fyrr
20 Um Guðmund Arason, sjá: Prestssaga Guðmundar Arasonar. Sturlunga saga. 1988.
Ritstjóri Örnólfur Thorsson. Reykjavík, 107. - Um barsmíðar er þjónuðu því
hlutverki að berja djöful og illan anda úr fólki, sjá: Handwörterbuch des deutschen
Aberglaubens. Band 7. Handwörterbuch zur deutschen Volkskunde. Abteilung I.
Aberglaube. 1935-36. Herausgegeb. E. Hoffmann-Krayer. Berlin und Leipzig, t.d.
1096-8.