Skáldskaparmál - 01.01.1992, Síða 152
150
Hermann Pálsson
„Sarð hann yður ei Agði?“
„Eigi enna,“ segir Halli.
Konungur brosti að og mælti: „Er nokkur til ráðs um að hann muni enn síðar
meir veita yður þessa þjónustu?"
„Ekki,“ sagði hann Halli, „og bar þó einn hlutur þar mest til þess er vér fórum
enga skömm af honum.“
„Hvað var það?“ sagði konungur.
Halli vissi gjörla við hvern hann talaði.
„Það herra," segir hann, „ef yður forvitnar að vita að hann Agði beið að þessu
oss tignari manna og vætti yðvar þangað í kveld og mun hann þá gjalda af
höndum þessa skuld ótæpt."
„Þú munt vera orðhákur miki 11,“ segir konungur.
Eins og víðar í fornum skopsögum, þá er skáldi og konungi gert jafn hátt
undir höfði að heita má, enda eykur það á kímnina að munur þeirra verði
sem minnstur. Hins vegar þykir raunsærri og alvarlegri ritsmiðum á borð við
Snorra Sturluson sjálfsagt að láta konung jafnan njóta tignar sinnar til hlítar
en minnka þó hvergi hirðskálda hlut.
Síðar í þættinum kemur í ljós að Halla líst mætavel á silfurrekna öxi kon-
ungs sem spyr skáldið einnar spurningar, og er þá ekki konunglega komist að
orði: „Viltu láta serðast til öxarinnar?" „Eigi,“ segir Halli, „en vorkunn þykir
mér yður að þér viljið svo selja sem þér keyptuð." Hér er hnyttilega svarað
þótt klámfengið sé, og ekki skánar orðbragðið þegar Halli staðhæfir um hest
sem Þjóðólfur vildi gefa konungi: „Hann er drottinserður." Og hvar getur
hirðskáld í fornum skræðum vorum sem kveður jafn skýlaust í eyru
drottningar og Halli þótt beðið sé um tvíræðisorð?
Þú ert maklegust miklu,
munum stórum það, Þóra,
flenna upp að enni
allt leður Haralds reðri.
Háttur slíkra skopsagna stingur mjög í stúf við þá virðingu sem gætir í
öðrum frásögnum af konungum. Sigurður Nordal saknar ýmissa atriða sem
Snorri Sturluson sleppti úr sögunni af Magnúsi góða og Haraldi harðráða
þótt þau prýði bæði Morkinskinnu og Flateyjarbók. „Má framar öllu nefna
sem dæmi hina frábæru lýsingu þess, er Arnór jarlaskáld flytur þeim
Magnúsi og Haraldi kvæði sín.“3 En atvikið mun lítt hafa verið að skapi
Snorra, þótt lýsingin sé frábær í sjálfri sér. Þvert ofan í alla hirðsiði veður
Arnór inn í stofu til konunga, óþveginn með tjörugar hendur og án þess að
leita leyfis ákveður hann sjálfur að flytja hinum yngra kvæðið fyrr: „Það er
mælt að bráðgeð verða ungmenni," segir skáld til skýringar, rétt eins og
óþægir krakkar eigi í hlut. Og ekki bætir hitt úr skák að fremst í Hrynhendu
3 Flateyjarbók IV (Akranesi 1945), ix. bls.