Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 153
Hirðskdld í spéspegli 151
yrkir Arnór um ferðir sínar og jarla vestur í Orkneyjum áður en kemur að
Magnúsi konungi sjálfum.
II
Löngum þótti frásagnarvert er íslenskt skáld bar að konungsgarði í því
skyni að fá hirðvist og freista frama síns með höfðingja lofi. Þá skipti miklu
máli að bragsmiður byði af sér svo góðan þokka að konungur yrði fús að
hlýða kvæði hans og gera hann að skáldi sínu. Með fádæmum er lýsingin á
Þorleifi jarlaskáldi sem kemur í heiftarhug til Hlaða eitt aðfangskveld jóla í
því skyni að hefna sín á Hákoni jarli fyrir mannadráp og eignatjón. Að hætti
Bragða-Mágusar laumast Þorleifur dulbúinn í brautingja gervi inn í
veislusalinn þar sem jarl var kominn í sæti og margt stórmenni sem þangað
var boðið.4 Þorleifur tyllir sér niður utarlega í hálminn og með því móti að
berja á öðrum stafkörlum vekur hann á sér athygli; reynast þær barsmíðar
ekki einu beinaspjöllin sem Þorleifur fremur í þessari jólaveislu. Jarl lætur
kalla hann fyrir sig og spyr að nafni, ætt og óðali; hann segist heita Níðungur
Gjallandason og vera kynjaður úr Syrgisdölum af Svíþjóð hinni köldu.
Heimkynni hans minna því á átthaga Gláms nokkurs sem gerðist sauðagætir
í Forsæludal og varð Vatnsdælum að miklu angri eftir að ævi hans lauk með
voveiflegum hætti á jólum. Svo vel fer á með þeim Hákoni og Níðungi að
jarlinn sýnir öldruðum gesti það lítillæti að hlýða á kvæði um sig, enda hafði
karl víða farið, marga höfðingja heim sótt og raunar ort um þá. Framan af
kvæðinu þykir jarli lof í hverri vísu.
En er á leið kvæðið þá bregður jarli nokkuð undarlega við að óværi og kláði
hleypur svo mikill um allan búkinn á honum og einna mest um þjóin að hann
mátti hvergi kyrr þola, og svo mikil býsn fylgdi þessum óværa að hann lét hrífa
4 Meginhluti Þorleifs þáttar fjallar um hefnd skáldsins; Hákon Hlaðajarl vinnur það
ódæma illræði að brenna kaupskip fyrir honum og láta taka alla skipshöfnina af lífi
fyrir engar sakir, og síðan yrkir skáldið áhrifamikið níð um jarlinn sem vafalaust hefði
gáð sín betur ef hann hefði þekkt varnaðarorð á borð við þau sem Grímur Thomsen
orti mörgum öldum síðar:
Enginn skyldi skáldin styggja,
skæð er þeirra hefnd,
Jarlinn var þó ekki af baki dottinn heldur sendir hann magnaðan trémann út til
íslands að drepa Þorleif. Níðs um Hákon er getið í Ólafs sögu Odds; segir svo í
annarri gerðinni: „Því orti Þorleifur, íslenskur maður, um hann níð að hann brenndi
skip fyrir honum.“ Islendingadrápa drepur á þann ófríða óð sem Þorleifur smíðaði
heiðnum jarli og mun þar vera stuðst við þáttinn.
Auðsær skyldleiki er með Þorleifs þætti og Mágus sögu jarls. Báðir garpar taka sér
brautingja gervi áður en þeir heimsækja þjóðhöfðingja, fá sér sæti í hálmi, nota
hækjur sínar í því skyni að lemja aðra stafkarla og koma sér síðan innundir hjá
höfðingjanum, geta með slíku móti leyst það verk af hendi sem þeir hafa ætlað sér.
Atvik og orðalag sýna glöggt að ritin eru skyld.