Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 154
152
Hermann Pálsson
sér með kömbum þar sem þeim kom að. En þar sem þeim kom eigi að lét hann
taka strigadúk og ríða á þrjá knúta og draga tvo menn milli þjóanna á sér.
Nú tók jarli illa að geðjast kvæðið og mælti: „Kann þinn heljarkarl ekki betur
að kveða því að mér þykir þetta eigi síður heita mega níð en lof og lát þú nú
batna ella tekur þú gjöld fyrir.“
Skáldið hét öllu góðu, en hóf þó upp Þokuvísur; þær standa í miðju
Jarlsníði og eru svo magnaðar að þá varð myrkt í höllinni. Síðasti þriðjungur
kvæðisins er þó einna rammastur því að „þá var hvert járn á gangi það er í
var höllinni án manna völdum og varð það margra manna bani. Jarl féll þá í
óvit en karl hvarf þá í brott að luktum dyrum og óloknum lásum.“ Kvæðið
hafði auk þess þau áhrif að allt skegg rotnaði af jarli og einnig hárið öðrum
megin reikar. Svo mikill kynngikraftur býr í kvæði Þorleifs að það orkar ekki
einungis á Hákon Hlaðajarl, bæði andlega og líkamlega, heldur er lögmálum
dauðrar náttúru einnig raskað. Olteiti og öryggi þoka fyrir sút og ringulreið;
jarlinn verður valdalaus og rænu um hríð; þeir hlutir sem eiga að liggja kyrrir
hver á sínum stað þeytast um veislusalinn þvert á móti eðlilegri skipan.
Rétt eins og Jarlsníð þá skiptast þær bölbænir sem Busla lætur dynja yfir
Hring konung (Bósa saga, 5. kap.) í þrjá hluti og harðna formælingar eftir því
sem á líður. í efsta þriðjungi Buslubœnar, svokölluðu Syrpuversi, er mestur
galdur fólginn „og eigi er lofað að kveða eftir dagsetur." En jafnvel fremsti
þriðjungur geymir sitt af hverju sem mönnum þykir lítill fögnuður að: „En
ef þú vilt við meyjar / manns gaman hafa / villist þú þá vegarins." Og í
öðrum þriðjungi er Hringi hótað með heldur nýstárlegum hætti, sem minnir
þó á drottinserðan hest í Sneglu-Halla þætti: „Hestar streði þig!“ Sá
gauragangur sem fylgir síðasta þriðjungnum af Jarlsníði minnir á áhrifin af
hörpuslætti Bósa (sem er raunar í gervi Sigurðar) í brúðkaupi trölla: „Og sem
inn kom það minni sem signað var Þór þá skipti ‘Sigurður’ um slagina og tók
þá að ókyrrast allt það sem laust var, hnífar og borðdiskar og allt það sem
engi hélt á, og fjöldi manna stukku upp úr sínum sætum og léku á gólfinu, og
gekk þetta langa stund.“ (12. kap.).5 Níð, fjölkynngi, galdur: á Hlöðum í
Þorleifs þætti birtast aðrar siðavenjur og töfralistir en hinar sem prýða
frásögn Eglu af níðstöng Egils, hrosshausi og svofelldum formála í rúnum:
„Sný eg þessu níði á landvættir þær er þetta land byggva svo að allar fari þær
villar vega, engi hendi né hitti sitt inni fyrr en þær reka Eirík konung og
Gunnhildi úr landi.“ (57. kap.). Hitt hefði þótt hin argasta ókurteisi í Eglu ef
skáldið hefði nítt þau hjónin í viðurvist þeirra sjálfra.
Var ekki Þorgarður trémaður sem Hákon Hlaðajarl sendi til höfuðs
Þorleifi jarlaskáldi einmitt sami gaurinn og sá flugumaður sem Hákon gamli
sendi að Reykholti í líki Gissurar Þorvaldssonar fyrir réttum 750 árum í því
5 Við hirðir konunga ríkja ákveðnir siðir og venjur sem allir verða að lúta, en í Þorleifs
þætti og Bósa sögu er slíkum reglum ekki einungis feykt út í veður og vind heldur
verða sjálf lögmál náttúrunnar að þoka fyrir þeirri kynngi sem stafar frá mögnuðu
kvæði ella hörpuslætti.