Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 157
Hirðskáld í spéspegli
155
um það er hann bar út ösku með öðrum systkinum sínum.“ Með því að geta
hér um Kolluvísur og Soðtrogsvísur er ekki einungis verið að niðra
skáldunum tveim heldur hljóta lofkvæði þeirra um Harald (og raunar
konungur sjálfur) að bíða hnekki við. Soðtrogsburður svarfdælskra barna
kemur eins og skollinn úr sauðarleggnum þar sem verið er að ræða um
alvarlegan skáldskap við norsku konungshirðina í Niðarósi. Haraldur
harðráði kveður upp svofelldan dóm um æskukveðskap norðlenskra skálda:
„Lítið er kvæðið hvort tveggja, enda munu lítil hafa verið yrkisefnin, og er
það þó enn minna er þú hefir ort Þjóðólfur." Allt um það leyfir konungur
Halla að færa drápuna og launaði honum „góðum peningum."
Hitt er þó miklum mun merkilegra hversu Halli auðgast af kveðskap
sínum á Englandi. Hann yrkir drápu um Harald konung Guðinason, sem
bar ekki sama skyn á skáldskap og nafni hans hinn harðráði og varð því að
spyrja hirðskáld sitt um kvæðið. Óðfræðingur Englakonungs kveðst ætla að
gott væri, en konung grunar þó að ekki sé allt með felldu og býður Halla að
dveljast með sér, en skáldið segist vera á förum til Noregs. Konungur kveðst
þá mundu launa kvæðið eins og vert væri, „því að engi hróður verður oss að
því kvæði er engi kann. Sit nú niður á gólfið, en eg mun láta hella silfri í
höfuð þér, og haf þá það er í hárinu loðir, og þykir mér þá hvort horfa eftir
öðru er vér skulum eigi ná að nema kvæðið.“ Halli fær leyfi af konungi að
ganga nauðsynja sinna, skreppur út á fund skipsmiða, ber tjöru í hár sér (sbr.
Arnór jarlaskáld hér að framan), gerir það íhvolft eins og skál; biður síðan
hella silfrinu yfir sig. „Og var það mikið silfur er hann fékk.“ Með slíkri vél
tollir þar drjúgur peningur fyrir torskilið kvæði. Halli státar síðan af því „að
hann hafði ekki kvæði ort um konung annað en kveðið endilausu.“ Eftir
þenna listasigur svipast Halli um eftir skipi til Noregs, því að hann „hafði of
fjár og vildi gjarna í burt.“ Og þegar þangað kemur spyr Haraldur harðráði
hvort hann Halli hefði þá ort um aðra konunga; þá svarar karl með vísu þar
sem hann játar á sig urmul af bragvillum og brotum:
Orta eg eina
of jarl þulu,
verður-at drápa
með Dönum verri.
Föll eru fjórtán
og föng tíu.
Opið er og öndvert,
öfugt stígandi.
Svo skal yrkja
sá er illa kann.
Þessi ambögulega þula sem Halli kveðst hafa ort um einhvern jarl kann
að vera lokleysa sú sem hann á að hafa kveðið um Harald Guðinason,
jafnvel þótt hann hefði þá lækkað Englakonung um skör. En kveðskapur
Halla var svo lélegur að verri drápu getur ekki með Dönum, og er þá býsna