Skáldskaparmál - 01.01.1992, Síða 166
164
Hermann Pálsson
og kunni eg frá að segja öðrum mönnum.“ Með því að konungi er ljóst að
Dagfinnur er enginn garpur, þá fer hann einn til móts við berserki og leggur
þá báða að velli, en Dagfinnur fylgist með sameign þeirra og yrkir síðan
kvæði um atburðinn, gengur „á hauginn upp til konungsins og féll á kné
fyrir hann (rétt eins og Hreiðar heimski á sínum stað) og laut honum."
Konungur leyfir honum blíðlega að flytja kvæðið, sem reyndist vera flokkur,
en þegar konungur vill launa höfðinglega og „gefa skáldinu gullhring mikinn
er hann hafði á arminum“, þá bregður svo undarlega við að Dagfinnur vill
ekkert fé þiggja, heldur lætur hann sér nægja að njóta sóma og virðingar af
konungi.
Nú ber svo við að Hjörgunnur kona Hjörvarðar jarls deyr á sóttarsæng,
og þá gengur hann að eiga Hildigunni drottningu; þau eignast síðan dóttur
sem hlaut nafnið Hlaðreið, og mun leitun vera á svo ljótu konunafni á
Gautlandi að fornu. Skömmu síðar andast jarl; þegar Hlégunnur dóttir hans
fréttir lát hans, þá heldur hún heim úr víkingu og leggur jarlsríkið undir sig;
brátt dregur til orrustu með henni og Geirviði konungi. Þegar lið konungs er
á leið niður að skipi bregður svo við að skóþvengur Dagfinns skálds slitnar;
hann vaknar af draumnum þegar hann bindur þvenginn og verður þá Oddi
Helgason að nýju, rétt eins og venja hans var. Nú man hann allt sem gerst
hafði í draumnum, nema flokkinn um Geirvið konung; ein fimm erindi tolla
þó enn í minni hans. Þegar tími er til kominn fer Oddi í rekkju sína, sofnar
og heldur áfram draumnum þar sem frá var horfið og hafði þá bundið
skóþvenginn. Nú er flota ýtt úr vör; Dagfinnur stjórnar einu skipinu sem
stefnt er móti Hlégunni. Orrustunni lýkur með sigri Geirviðar konungs,
enda hafði hann notið hjálpar Dagviðar til að sigrast á göldrum hennar. Á
fjölmennu þingi eftir að friður ríkir að nýju um allt Gautland flytur
Dagfinnur skáld Geirvið konungi þrítuga drápu, heldur veglegri bragsmíð en
flokkinn forðum. Konungur þakkar kvæðið og vill gefa honum digran
gullhring að skáldskaparlaunum, en Dagfinnur vill ekkert þiggja fremur en
fyrri daginn. Þó lyktar málum á þá lund að Geirviður konungur gefur
Dagfinni Hlaðreið systur sína, og nú klykkir draumnum út með dýrlegri
brúðkaupsveislu og þeim miklu ástum sem tókust með þeim hjónum. Oddi
vaknar við góðan draum og man allt sem gerðist þar; þó bögglaðist fyrir
honum þrítug drápa að undanskildum ellefu vísum, og fylgja þær draumnum
eins og við mátti búast.
I Þorleifs þætti jarlaskálds verður Hallbjörn hali meiri háttar skáld með
því auðvelda móti að nema slíka list í draumi eina næturstund, en Stjörnu-
Oddi sem var ekki skáld né kvæðinn meðan hann hélt vöku sinni reyndist
þeim mun knæfari bragsmiður að hann var ekki fyrr farinn að njóta drauma
sinna en hann var orðinn hirðskáld með útlendum þjóðhöfðingja. Þó verður
ekki sagt að mikill ljómi stafi af hróðri Dagfinns, en sagnameistari hefur
skýringu á reiðum höndum. Undir þáttarlok segir svo: „Má og ekki undrast
þótt kveðskapurinn sé stirður því að í svefni var kveðið.“ Hitt er naumast