Skáldskaparmál - 01.01.1992, Síða 173
Viðvörun Snorra Sturlusonar
171
Er Einar var fallinn deildu þeir bræður, Brúsi og Þorfinnur, um þann
þriðjung Orkneyja sem Einar hafði átt. Vildi Brúsi hafa Einars hlut allan (þ.e.
2/3 hluta eyjanna), enda höfðu verið gerðir samningar um það, en Þorfinnur
vildi hafa hálfar eyjarnar. Brúsi óttaðist að verða aflvana fyrir Þorfinni því
Þorfinnur hafði styrk af Skotakonungi, móðurafa sínum. Hann leitaði því til
Noregs á fund Ólafs konungs og bauð honum vináttu sína ef hann styrkti sig
gegn Þorfinni. Ólafur konungur svaraði með langri ræðu og gerði tilkall til
eyjanna sem hann byggði á því að Haraldur hárfagri hefði sett þar hinn
fyrsta jarl:
„Vil eg gera þér þann kost að þú gerist minn maður. Mun eg þá fá eyjarnar þér í
lén.... En ef þú vilt eigi þenna kost þá mun eg eftir leita þeim eignum og óðulum
er vorir frændur og foreldrar hafa átt vestur þannug.“ (369-70)
Brúsi jarl volkaði ráðin fyrir sér um hríð en komst að þessari niðurstöðu:
„En hitt er mér ósýnna hver minn hluti verður að skilnaði vorum ef eg kveð nei
við, því að konungur hefir bert gert það tilkall er hann hefir til Orkneyja, en við
stórræði hans og það er vér erum hér komnir þá mun honum lítið fyrir að gera
það af vorum kosti sem honum sýnist." (370)
Brúsi jarl gerðist því maður Ólafs konungs, sór honum eiða en skildi
Rögnvald son sinn eftir í konungsgarði í gíslingu.
Þegar Þorfinnur frétti af Noregsför Brúsa jarls bróður síns hugðist hann
mega treysta vináttumálum Ólafs konungs frá því árið áður og hélt einnig á
konungsfund til að tryggja sinn hlut við norsku hirðina. Hann kom þó ekki
til Noregs fyrr en samningum Ólafs konungs og Brúsa var lokið. Þegar þeir
hittust, Þorfinnur og Ólafur konungur, hóf konungur upp sama ákall til ríkis
í eyjunum og við Brúsa. Þorfinnur fór undan í flæmingi og bað sér leyfis að
fara vestur um haf því hann væri bernskur og heima allt ráðuneyti hans. Er
konungur fann undandrátt í svörum Þorfinns sagði hann:
„Ef þú, jarl, vilt ekki gerast minn maður þá er hinn kostur að eg setji þann mann
yfir Orkneyjar er eg vil. En eg vil að þú veitir þá svardaga að kalla ekki til landa
þeirra og láta þá í friði vera af þér er eg set yfir löndin. En ef þú vilt hvorngan
þenna kost þá mun svo þykja þeim er löndum ræður sem ófriðar muni af þér
von vera. Mdþérþd eigi undarlegt þykja þótt dalur mati hóli.“ (371)
Þorkell fóstri, sem þá var við hirð Ólafs konungs, sendi mann á laun til
Þorfinns og „bað hann eigi það fyrir ætlast, hvatki er honum var í hug, að
skiljast svo að sinni við Ólaf konung að þeir væru eigi sáttir, svo sem hann
varþá kominn íhendur konungi" (371). Þorfinnur þóttist nú sjá:
... að einbeygður mundi kostur að láta konung þá fyrir ráða, þótti hinn eigi
kostlegur að eiga enga von sjálfur til ættleifðar sinnar en veita til þess svardaga að
þeir hefðu í ró ríki það er þar voru ekki til bornir. En fyrir því að honum þótti