Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 179
Sturlungasaga - Textar og rannsóknir
177
874-1960 eftir Stefán Einarsson (Stefán Einarsson 1961: 188-94) og
„Bókmenntasögu" Jónasar Kristjánssonar í Sögu Islands, 2. bindi Qónas
Kristjánsson 1975: 242-58; sjá einnig Jónas Kristjánsson 1988a: 187-202).
Rannsóknir á Sturlungu hafa aðallega verið textafræðilegar. Fræðimenn
hafa fengist við vandamál varðandi samsetningu samsteypuritsins, uppruna,
varðveislu og aldur þess og sagnanna sem það hefur að geyma. Sturlunga
hefur einnig verið notuð sem ein helsta heimild um sögu 12. og 13. aldar án
þess að heimildargildi hennar hafi að marki verið dregið í efa. Fram á síðustu
ár hefur hins vegar lítið verið fjallað um Sturlungu og sögur hennar sem
bókmenntaverk þótt fræðimenn hafi bent á einstök bókmenntaleg einkenni
veraldlegra samtíðarsagna, svo sem í byggingu þeirra, frásagnarhætti, per-
sónulýsingum, hneigð og stíl. Enda hafa menn einkum litið á Sturlungu sem
sagnfræðirit og fæstir verið skyggnir á bókmenntagildi hennar.
Handrit, útgáfur og þýðingar
Fræðimenn veittu Sturlungu fyrst athygli um miðja 17. öld (Guðbrandur
Vigfússon 1878: cx-cxi). Var þá frumhandritið týnt en samsteypan varðveitt
á tveimur skinnhandritum sem þá voru næsta heil (Kálund 1901). Á þessum
tíma voru gerð afrit á pappír af báðum handritunum. En áður en Árni
Magnússon komst yfir skinnhandritin um 1700 höfðu þau skemmst illa. Þau
eru nú númer 122a og b fol. í Árnasafni. Kristian Kálund, sem fyrstur
rannsakaði handrit Sturlungu til hlítar, kallaði fyrrnefnda handritið Króks-
fjarðarbók, þar sem það var ef til vill varðveitt í Króksfirði á síðmiðöldum,
og merkti það I. Samkvæmt skoðun Stefáns Karlssonar var þetta skinn-
handrit líklega skrifað upp úr 1360 (Stefán Karlsson 1967: 47). Upphaflega
mun hafa verið 141 blað í þessu mikla handriti en aðeins 110 blöð eru nú
varðveitt, sum skert (Jakob Benediktsson 1972: 356). Síðarnefnda skinn-
handritið nefndi Kálund Reykjarfjarðarbók en Gísli Jónsson í Reykjarfirði
við Arnarfjörð átti það heilt um miðja 17. öld. Merkti Kálund það IL Að
ætlan Stefáns Karlssonar var handrit þetta ritað á síðasta fjórðungi 14. aldar
(Stefán Karlsson 1970: 129-30). Aðeins 30 blöð eða blaðslitur eru nú
varðveitt af Reykjarfjarðarbók en upphaflega hefur hún að líkindum verið
um það bil 180 blöð.
Um fjörutíu pappírshandrit sem runnin eru frá handritunum I og II eru
enn varðveitt. Eins og áður sagði eru sum þeirra frá 17. öld en nokkur eru
ekki eldri en frá fyrri hluta 19. aldar (Benedikt Sveinsson 1915: vi-viii). Fjöldi
handritanna er merki um mikinn áhuga á sagnafróðleik. Vitnað er til þessara
pappírshandrita sem Ip og IIp eftir því frá hvorri skinnbókinni þau eru
aðallega runnin en ekkert þeirra hefur texta annarrar hvorrar bókarinnar
óblandaðan af texta hinnar.
AM 114 fol. er elsta eftirrit Króksfjarðarbókar. Jón Gissurarson á Núpi