Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 181
Sturlungasaga - Textar og rannsóknir
179
Þekking og skilningur á varðveislu, uppruna, aldri og gerð Sturlunga sögu
hefur aukist mikið frá því sagan var fyrst gefin út í Kaupmannahöfn í
tveimur bindum á vegum Hins íslenska bókmenntafélags á árunum 1817-20.
Þessi útgáfa var reist á allmörgum pappírshandritum, þó aðallega Vallabók. I
henni er Sturlungu skipt í tíu hluta eins og gert er í sumum pappírs-
handritanna. Skiptingin fer þó eftir efni samsteypunnar en ekki uppruna
sagnanna.
Önnur útgáfa í tveimur bindum, sem Guðbrandur Vigfússon sá um
(Oxford 1878), var bæði reist á skinn- og pappírshandritum, þó aðallega á II
svo langt sem það nær og Br en með mörgum lesháttum úr I. Guðbrandur
gerði fyrstur tilraun til að flokka handrit Sturlungu og meta gildi þeirra.
Hann varð einnig fyrstur til að skilja inntak svonefnds Sturlunguformála til
nokkurrar hlítar og sýndi fram á að Sturlunga væri samsteypa margra
sjálfstæðra rita. I útgáfu hans, sérstaklega fyrri hlutanum, er samsteypan
hlutuð í einstakar sögur. Hins vegar er ekki unnt að treysta texta þessarar
útgáfu þar sem hún er allhroðvirknislega unnin eins og gagnrýnendur hafa
bent á (Kálund 1901: 276-77; Jón Jóhannesson 1946: lii; Brown 1952a:
lx-lxi).
Kristian Kálund gaf Sturlunga sögu út í tveimur bindum í Kaupmanna-
höfn á árunum 1906-11. Vegna þessarar útgáfu rannsakaði hann handrit
Sturlungu rækilega: gerð þeirra, aldur, innbyrðis skyldleika og gildi eins og
hann lýsir í formála og í greininni „Om hándskrifterne af Sturlunga saga og
dennes enkelte bestanddele" (Kálund 1901). Kálund hlutaði ekki prentaða
textann í einstakar sögur heldur fylgdi skipan samsteypunnar í handritum.
Taldi hann Króksfjarðarbók geyma eldri gerð Sturlungu og birti því texta
þess handrits stafréttan svo langt sem hann nær. Eyðurnar í I fyllti hann með
texta II og IIp en lesbrigði tók hann úr II, IIp og Ip. Texti þessarar útgáfu,
sem ekki er runnin frá I, er prentaður með smærra letri og glögglega sýnt
hvað er fengið úr hverju handriti. Utgáfa Kálunds er mjög vönduð en það er
þó sá galli á henni að Kálund átti þess ekki kost að nota Br nema takmarkað.
Króksfjarðarbók var gefin út ljósprentuð í Kaupmannahöfn árið 1958 og
ritstýrði Jakob Benediktsson þeirri útgáfu (Early Icelandic Manuscripts in
Facsimile 1).
Fyrsta eiginlega lestrarútgáfan á Sturlunga sögu kom út í Reykjavík
1908-15 í fjórum bindum og sáu Björn Bjarnason og Benedikt Sveinsson um
hana. Studdust þeir við útgáfu Kálunds en gerðu þó nokkrar breytingar á
textanum eftir handritum. Utgefendurnir skiptu einnig textanum í einstakar
sögur að dæmi Guðbrands Vigfússonar.
Jón Jóhannesson, Magnús Finnbogason og Kristján Eldjárn sáu um
útgáfu á Sturlungu sem kom út í Reykjavík í tveimur bindum 1946.
Utgefendurnir lögðu einnig texta Kálunds til grundvallar en lagfærðu hann
þar sem þeim sýndist annar texti upprunalegri. Þá er safnið hlutað í einstakar
sögur enn frekar en Guðbrandur Vigfússon hafði gert. Utgáfa þessi er mjög