Skáldskaparmál - 01.01.1992, Side 187
Sturlungasaga - Textar og rannsóknir
185
safninu, stundum fleiri en einn eins og t.d. að Þorgils sögu skarða. Þær
viðmiðanir sem þeir hafa oftast notað við að ákvarða höfunda eru þau
þekkingaratriði sem koma fram í sögunni, sjónarhorn sögumanns, viðhorf í
frásögninni og stíll. Björn M. Ólsen gat sér þess t.d. til út frá þekkingu og
viðhorfum sögumannsins að Snorri Sturluson hefði skrifað Sturlu sögu
(Björn M. Ólsen 1902: 218-23). Hefur Peter Foote að nokkru leyti tekið
undir þá skoðun (Foote 1950-51: 235) en Alfred Jakobsen telur að málfar
sögunnar bendi ekki á Snorra (Jakobsen 1986; einnig Hallberg 1965: 174).
Höfundarákvörðun sem reist er á þessum viðmiðunum getur aldrei orðið
örugg; satt að segja er hún oftast aðeins getgáta (Mundal 1977: 269-71). Auk
þess ganga fræðimennirnir út frá að miðaldahöfundar hafi starfað eins og
rithöfundar nú á tímum en það hefur hins vegar oft verið dregið í efa á seinni
árum, m.a. af Lars Lönnroth og M.I. Steblin-Kamenskij. Benda þeir á að
skrifarar og afritarar hafi átt drjúgan hluta í bókmenntaverkum á miðöldum.
Höfundarnir hafi oft aðeins sagt fyrir um helstu drög þeirra (Lönnroth 1964:
einkum 78-97; einnig Lönnroth 1990; Steblin-Kamenskij 1981: 39-54).
Það er einnig erfitt að ákvarða hvenær fornsögurnar voru skrifaðar í
upphafi. Eins og kunnugt er eru sögurnar ekki tímasettar í handritum,
varðveitt handrit eru mjög oft illa farin og auk þess að líkindum miklu yngri
en sögurnar. Þá breyttu afritarar gjarnan textum í meðförum. Þegar fjallað er
um aldur einstakra sagna í Sturlungu verður fyrst að átta sig á hvenær
samsteypan hafi verið sett saman. Aldur skinnbókanna tveggja, þótt ekki sé
unnt að ákvarða hann nákvæmlega, innbyrðis samband milli Sturlungu og
annála og textinn sjálfur, svo sem formálinn, benda til þess að samsteypan sé
frá því um 1300. Samkvæmt formálanum eru Þorgils saga og Hafliða, Sturlu
saga, Prestssaga, Guðmundar saga dýra og (líklega) Hrafns saga eldri en
Islendinga saga. Ef sú skoðun Jóns Jóhannessonar er rétt að Sturla Þórðar-
son hafi þekkt Þórðar sögu kakala og Þorgils sögu skarða þegar hann setti
saman Islendinga sögu eru þær eldri en hún. Hins vegar er óvíst hvenær eða
á hversu löngum tíma Islendinga saga var skrifuð. Stefán Karlsson hefur
getið sér þess til að Sturla Þórðarson hafi ritað handrit það, sem hann kallar
Membrana Reseniana 6 og nú er glatað, að meginhluta á árunum 1250 til
1284 og hafi það verið alfræði hans (Stefán Karlsson 1988). Gætu þetta að
einhverju leyti verið minnisgreinar Sturlu við sagnaritun sína, ekki síst
Islendinga sögu. Lars Lönnroth telur þó að hér sé um eina bóka Helga-
fellsklausturs að ræða og Sturla hafi aðeins fengið hana að láni til að styðjast
við (Lönnroth 1990; sjá ennfremur Lönnroth 1968).
Hér á eftir er þess getið hvenær nú þykir líklegast að einstakar sögur í
Sturlungu hafi verið ritaðar (sjá Jón Jóhannesson 1946: xxi-xlvi). Helstu
rökin sem notuð hafa verið við aldursákvörðun sagnanna, önnur en
Sturlunguformálinn, eru sagnfræðileg, þ.e. vikið er í sögunum að mönnum
eða atburðum síðari tíma og minnst á menningarsöguleg eða fornfræðileg
efni. Einnig eru teknar röksemdir af máli, þekkingu höfunda á frásagnarefni,