Skáldskaparmál - 01.01.1992, Side 215
Eru biskupasögur til?
213
höfundarnir oft grein fyrir þjóðfélagslegum og sögulegur bakgrunni. Þeir
skýra einnig frá tilgangi sínum með ritun sögunnar.
Sögur biskupsstóla eru að miklu leyti sagnfræðilegar og geta stuðst við
skjöl eða aðrar heimildir. En það mótar sögurnar mjög að þær eru saga staða
sem eru í eðli sínu helgir og manna sem hlotið hafa kirkjulegar vígslur og
gegnt háum embættum innan kirkjunnar, þó ekki séu þeir allir helgir menn.
I einföldustu mynd sinni er gesta episcoporum skrá um kirkjuhöfðingja
með upplýsingum um stjórn þeirra, byggingar á tímabilinu og eignaauka. I
fyllra formi er ströng tímaröð skrárinnar rofin með ítarlegri frásögnum.
Upphaf staðarins er söguritara mikilvægt áhugaefni, hann leitast við að sýna
fram á að staðurinn eigi sér það sem kalla má heilagt upphaf. I upphafi
Hungurvöku er rakin ætt fyrsta biskupsins og tekið fram að einn forfeðra
hans hafi verið meðal kristniboða landsins og hafi jafnframt búið í Skálholti:
Ketilbjörn hinn gamli bjó að Mosfelli og átti margt barna. Teitur hét son
Ketilbjarnar. Hann var sá gæfumaður að hann byggði þann bæ fyrst er í
Skálaholti heitir, er nú er allgöfgastur bær á öllu Islandi. Sú var önnur gæfa hans
að hann átti að syni Gizur hinn hvíta er með kristni kom til Islands og bjó í
Skálaholti eftir Teit föður sinn.24
Dæmi eru um að langar frásagnir séu um þann biskup sem kemur
sögurituninni af stað. I Hungurvöku segir ekkert frá Páli Jónssyni, en sé litið
á sögur Skálholtsbiskupa sem samfellda heild verður skiljanlegra, í þessu
ljósi, hversvegna rituð var sérstök saga af honum.
Sögur biskupsstóla fylgja línulaga tíma og hafa engan ákveðinn
endapunkt, á þann hátt eru þær ekki lokaðar sögur. Þess eru jafnvel dæmi að
ritun sögu biskupsstóls hafi verið tekin upp aftur eftir nokkurt hlé. Þar sem
það var söguriturunum mikið kappsmál finna sögurituninni heilagt upphaf
kemur það ekki á óvart að frásagnir þeirra af einstökum biskupum taki mið
af frásagnarhætti lífssögunnar, þær eru styttar lífssögur. Innan þeirra getur
líka verið að finna sögur um helga menn ef þeir tengjast staðnum. I
frásögnum þeirra er megináhersla lögð á biskupstíð viðkomandi biskupa.
Þær jarteinasögur sem fyrir koma eru yfirleitt viðkomandi staðnum sjálfum.
Dauði og greftrun kirkjuhöfðingja skipar mikið rúm í frásögninni. I þeim
birtist lotning fyrir dauðanum og grafreitnum, sem er fundinn staður í
helgri staðfræði biskupsstólsins. Biskupunum er í raun reistur tvennskonar
minnisvarði, á gröf og með frásögn - sögur biskupsstólanna eru bautasteinar
í frásögn. Hvatamenn ritanna eru oftast biskuparnir (eða ábótarnir) sjálfir.
Ritin geta einnig verið tæki í valdabaráttu, liður í staðfestingu valds
kirkjunnar gegn veraldlegu valdi. Höfundarnir, sem oftast eru samtímamenn
biskupanna, leggja mikla áherslu á að lýsa því hvernig biskuparnir hafi
fegrað og auðgað kirkjuna og staðinn, fegurð bygginga og verðmæti gripa
auka auðsæilega hróður staðarins.
24 [Hungurvaka]. Byskupa spgur. Udg. ved Jón Helgason. I. Kbh. 1938, 75.