Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 218
216
Asdís Egilsdóttir
og rita tíðabækur miklar, miklu betri en áður voru.“34 Alls staðar skín í gegn
áhugi á og umhyggja fyrir fjármálum og hag staðarins.
Greint er frá legstað allra biskupanna nema Þorláks Runólfssonar. Áður
en fyrsti íslenski biskupinn var jarðsettur í Skálholti var grafinn þar erlendur
biskup, Kolur að nafni. Þannig segir höfundur Hungurvöku frá:
Um daga ísleifs biskups kom út sá biskup er Kolur hét, og andaðist hann út hér.
Hann var grafinn í Skálaholti og var sú kirkja hér á landi fyrst prýdd í tigins
manns grefti er að réttu kallast andleg móðir allra annarra vígðra húsa á íslandi.35
Þessi litla klausa sýnir áhuga höfundar og virðingu fyrir grafreitnum og
þar sver hann sig í ætt við aðra sagnaritara um biskupsstóla.
Sögur biskupsstóla eru vissulega fyrst og fremst sögur staðar, þar sem
kirkjan er í fyrirrúmi, en jafnframt er þeim ætlað að halda á lofti minningu
um dyggðuga menn.
Sigurður Nordal segir svo um Hungurvöku:
Á hinn bóginn er andinn hér allur annar en í helgisögunum. Vissulega er rætt um
biskupana með aðdáun og lotningu en þó laust við ýkjur og mærð. Framsetning
er fáorð, en þó fjörleg, svo að til skiptis minnir á rit hinna fróðu manna og
sögurnar.36
I Hungurvöku er persónulegum einkennum biskupanna lýst, kostum
þeirra og göllum. En þrátt fyrir það er ekki laust við að persónulýsingar og
frásagnarminni beri keim af helgisögum. Biskuparnir líkjast helgum
mönnum í guðrækilegu líferni, þó svo að lýsingum sé ef til vill meira í hóf
stillt en í helgisögunum, enda er hér líka um styttri texta að ræða. Ásamt því
að efla kirkju og kristni, eru biskuparnir trúræknir og friðsamir, lítillátir og
þolinmóðir, þeir biðja, fasta, líkna snauðum og lesa helgar bækur.
Helstu einkenni sem rekja má til helgisagna eru þessi:
Biskup er námfús, siðlátur og bænrækinn í bernsku og æsku
Hann færist undan biskupskjöri
Honum er fagnað við heimkomu og vígsluför
Hann heldur sama lítillæti í biskupsdómnum sem hann hafði áður
Biskup er hófsamur og guðrækinn í daglegu lífi
Biskupinn hneigist til meinlæta og jafnvel písla
Biskup býr sig og sína nánustu undir andlát sitt
Jarteinir verða við andlát biskups
Mörg þessara atriða koma fyrir hjá hverjum biskupa Hungurvöku, auk
þess er getið um einn biskup sem leið píslarvætti, og einn þeirra gerir krafta-
verk í lifanda lífi.
34 Hungurvaka 110-111.
35 Hungurvaka, 78.
36 Sigurður Nordal, 73-74.