Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 222
220 Ásdís Egilsdóttir
Þorláks sögu gerðar gæti því verið sú að hún hafi átt að falla að hinum
sögunum tveimur og mynda með þeim samfellda biskupasögu Skálholts.
Þannig mynda sögurnar líka eina heild, sem gefur til kynna að saga
biskupsstólsins hafi verið slétt og felld og átakalaus, því í A-gerð er ekkert
minnst á viðkvæm deilumál Þorláks við höfðingja.52
Ég játa að hafa haft meiri áhuga á að velta fyrir mér sameiginlegu
markmiði sagnanna heldur en sameiginlegum höfundi. En þess má geta að
Beda prestur hinn fróði samdi ólíkar sögur af kirkjunnar mönnum, svo sem
sögu ábóta Monkwearmonth og lífssögu heilags Cuthberts. Munur þessara
sagna minnir að ýmsu leyti á þann mun sem er á Hungurvöku og Þorláks
sögu, þar sem strangt tímatal er undirstaða hinnar fyrrnefndu, en hin
síðarnefnda nánast tímalaus.53
I upphafi þessa spjalls var vitnað í formála Biskupasagnanna frá 1858-78.
Þó svo að hér hafi verið fjallað um þær með nokkuð öðrum hætti er þó ekki
ætlun mín að gera lítið úr heimildagildi þeirra, fremur að vekja athygli á því
hvaða staðreyndir séu valdar til frásagnar og hvar áherslurnar liggja.
Biskupasögurnar eru heimild um lærdóm vel menntaðra íslenskra rithöfunda
á miðöldum og þær eru ekki síður merkileg heimild um hugarfar manna,
trúarlíf og viðhorf, en atburði.
Þá er komið að því, í lokin, að svara þeirri spurningu sem ég valdi mér
sem fyrirsögn. Ég hallast að því að þrátt fyrir allt megi á líta á biskupasögur
sem einn hóp sagna. Sumar þeirra eru lífssögur helgra manna, en innan
játarasagna mynda sögur af helgum kirkjuhöfðingjum sérstaka undirdeild.
Hungurvaka, Þorláks saga og Páls saga mynda eina skýra heild. Þótt reynt
hafi verið að greina þær í sundur og setja í mismunandi flokka (sagnfræðirit
og helgisögur) eru sameiginlegu einkennin nægilega sterk til þess að kalla
þær eina heild.54
Erindi flutt á rannsóknarkvöldi Félags íslenskra fræda, 14. febrúar 1991
52 Um íslenskar gerðir Þorláks sögu, sjá Jón Böðvarsson, Munur eldri og yngri gerðar
Þorláks sögu. Saga 6 (1968), 81-94.
53 David Robert Samuelson. The Operation of the Bishop’s Legend in Early Medieval
England and Iceland. Ann Arbor 1986, 113-161.
54 Pétur Már Ólafsson kemst að svipaðri niðurstöðu um þetta, sjá Hryggðarmörk á
höfuðskepnum, 2