Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 232
230
Svanhildur Óskarsdóttir
hegðun Guðmundar með erlendum fyrirmyndum hafa fræðimenn einkum
stöðvast við þá Bernharð frá Clairvaux (1090-1153) og Frans frá Assisi
(1182-1226).2 (I Rannveigarleiðslu í Guðmundar sögu er einnig dregin fram
hliðstæða Guðmundar og heilags Tómasar frá Kantarabyrgi3 og víst svipar
þeim saman í einstrengingslegri afstöðu sinni gagnvart veraldlegu valdi. Um
deilur Guðmundar við höfðingja hefur margt verið ritað en þær verða að
mestu látnar liggja milli hluta hér og þá einnig samlíking þeirra Tómasar.)
Samanburður Guðmundar við dýrlingana Bernharð og Frans byggist
einkum á viðhorfi hins fyrstnefnda til fátæklinga og líferni hans sem á að
einkennast af breytni í anda Krists, Imitatio Christi, eins og reglur þessara
helgu manna, sistersíanareglan og fransiskusarreglan skilgreindu hana. I
þessari grein verður einkum leitað svara við þeirri spurningu hvort ástæða sé
til að gera ráð fyrir að Guðmundur Arason hafi tileinkað sér kenningar
sistersíana og gerst boðberi þeirra hér á landi en að því lætur Selma
Jónsdóttir listfræðingur m.a. liggja í bók sinni Saga Maríumyndar.4 En fyrst
verður vikið stuttlega að hugsanlegum tengslum Guðmundar og Frans frá
Assisi.
II
Þar er fyrst til að taka að heilagur Frans og Guðmundur voru samtíðarmenn
og erfitt að ímynda sér að kenningar Frans hafi náð eyrum þess síðarnefnda.
Guðmundur fór þrisvar sinnum utan, í öll skiptin til Noregs og ferðaðist
ekki víðar. Fyrstu fransiskanaklaustrin voru stofnuð í Noregi á síðari hluta
13. aldar en regla heilags Dóminíks skaut þar rótum aðeins fyrr - 1240 voru
þrjú slík klaustur í Noregi.5 Fyrir utan umhyggju fyrir fátæklingum er það
kannski flökkulífið sem freistar til samanburðar á Guðmundi góða og
fransiskönum. En flokkar fransiskana voru flokkar munka sem játuðust
undir reglu og tengdust einkum hinum ört vaxandi borgum í Evrópu á 13.
öld. Þetta er allt harla ólíkt Guðmundi og fylgdarliði hans. Og hér verður að
minna á að betlimunkar Frans og Dóminíks eru alls ekki fyrstu
2 Af þeim sem nefnt hafa Guðmund í sömu andrá og Bernharð frá Clairvaux og Frans
frá Assisi má nefna Magnús Jónsson („Guðmundur biskup góði“ í Samtíð og saga I.
Rvík 1941, einkum bls. 130-34), Jón Jóhannesson (Islendinga saga I. Rvík 1956,
einkum bls. 250-3) og Magnús Stefánsson („Kirkjuvald eflist". Saga Islands II. Rvík
1975, einkum bls. 134-6). Sjá einnig Boyer 1972, bls. 82-4. Einhverjar tilraunir til að
benda á erlendar fyrirmyndir koma raunar fram í nær öllu því sem skrifað hefur verið
um Guðmund í yfirlitsritum og ekki unnt að rekja það allt hér enda taka flestir í sama
streng og þeir sem hér hafa verið nefndir.
3 Sjá Guðmundar sögur biskups I, bls. 98. Allar tilvísanir í Guðmundar sögu A hér á
eftir eru í þessa útgáfu en stafsetningu hef ég fært til nútímahorfs.
4 Selma Jónsdóttir, bls. 39-50.
5 Kolsrud, bls. 206.