Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 272
Fjögur bréf um Jóreiðardrauma
HELGI SKÚLI KJARTANSSON og
BERGLJÓT SOFFÍA KRISTJÁNSDÓTTIR
Bergljót mín góð.
Þakka þér kærlega fyrir greinina í fyrsta hefti Skáldskaparmála um drauma
Jóreiðar. Hún er a.m.k. nógu „vísindakonuleg" til að hafa sannfært mig um
mörg atriði sem mig hefði ekki órað fyrir af sjálfsdáðum.
Samt langar mig til að nöldra við þig svolítið um eitt atriðið í Jóreiðar-
sögunni, nefnilega Jóreiði sjálfa.
Þú gerir eiginlega nauðalítið úr Jóreiði, virðist líta á hana sem uppdiktaða
persónu og sé henni valið nafn og aldur Qóreiður Hermundardóttir, 16 vetra)
af táknlegum ástæðum.
Nú get ég ekki neitað rökum þínum fyrir því að sagan beri fingraför
lærðrar tísku. Hún hlýtur því, í sinni endanlegu útfærslu, að vera skrif-
borðsverk karlmanns, og þá væntanlega Sturlu Þórðarsonar eins og þú segir.
En ég sakna þess samt ef ég má ekki lengur trúa á Jóreiði sem sannsögulega
persónu og með nokkrum hætti upphafsmann draumasögunnar. Mér finnst
það nefnilega ganga að mörgu leyti svo skemmtilega upp að eigna henni
þessa „kraftbirtingu í draumi“.
Að minnsta kosti vil ég trúa því að sagan sé ekki einbert hugarfóstur
Sturlu, heldur sé hún að stofni til komin úr Árnesþingi og frá því ári sem
sagan segir, 1255.
Sjónarhóllinn í sögunni, bæði hjá Jóreiði og þó einkum draumkonunni,
sem flytur auðvitað boðskap frásagnarinnar, er eindregið hjá Haukdælum.
En eins og þú bendir á (og berð Glendinning fyrir) einkennir það að jafnaði
drauma- og forspársagnir Sturlu að þær beina athyglinni að Sturlungum.
Gissur Þorvaldsson og Hallur sonur hans njóta allrar samúðar í draumum
Jóreiðar, en brennumenn eru alillir. Hrafn Oddsson og Þorgils skarði, sem
höfðu a.m.k. með köflum verið í fullkomnum fjandskap við Gissur, eru
vondir. En Þorvarður Þórarinsson er góður, enda berst hann á Þveráreyrum
til að hefna bróður síns sem hafði fallið fyrir málstað Haukdæla. Flugu-
mýrarbrenna (1253), ógnin af brennumönnum og bardaginn á Þveráreyrum
(júlí 1255) eru yfirþyrmandi nálæg í draumunum.
Þar með er svosem ekki úr því skorið hvort rétt er að rekja draumsöguna
nákvæmlega til unglingsstúlkunnar í Miðjumdal. Hugsum okkur samt í bili
að Jóreiður sé sannsöguleg og einhver vísir að sögunni raunverulega frá
henni kominn. Þá hefur hún væntanlega orðið vitni að allmiklum tíðindum
sumarið áður sem einnig er sagt frá í íslendinga sögu (Sturlunga (Svart á hvítu
SKÁLDSKAPARMÁL 2 (1992)
270