Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 275
Fjögur bréf um Jóreiðardrauma
273
ljóst að það er bara skoðun, ályktun sem dregin er af tilteknum bókmennta-
einkennum sem ég þykist sjá. Þess vegna get ég í þessu efni sagt eins og
karlinn forðum: „Hvað ætli maður viti sosum. En sæti maður við glugga sem
vissi út að götu ...“
Þú segir í bréfi þínu að þér þyki líklegra að Sturla hafi „heyrt og lært
draumasöguna“ en hann „hafi sjálfur mótað boðskap hennar“ m.a. af því að
í henni sé Þorvarður tekinn fram yfir Þorgils skarða. Ég er alveg sammála þér
um að afstaða til manna í þriðja draumnum, og þá reyndar ekki síður þeim
fjórða, virðist mæla gegn því að Sturla hafi sjálfur samið draumsöguna. Mér
er einnig ljóst að líkt og Hreppamaðurinn í þér þekkir ættaróðal sitt í
Langholti því sem Gissur gistir - réttilega að því er ég best fæ séð - má vera
að Hvammsveitungur minn vilji sína Jóreiðardrauma breiðfirska - með
góðu eða illu! En jafnvel þó svo kunni að vera er hitt satt að það eru alltaf
sömu staðreyndirnar sem bögglast fyrir brjóstinu á mér þegar ég velti fyrir
mér hvernig Jóreiðardraumar kunni að vera tilkomnir: þeir eru í ýmsu
hliðstæðir öðrum draumum í sögunni, draumum sem menn eru á einu máli
um að Sturla hafi skráð og fært í stílinn — eða samið svo allra kosta sé gætt.
Eins og fram kemur í Inngangi að Skýringum og fræðum, 3. bindi
Sturlunguútgáfu Svarts á hvítu (1988), er Guðrún Gjúkadóttir ekki eina
persónan úr fornum skáldskap sem birtist í draumum Islendinga sögu og
flytur tíðindi (lxxiii). Þegar Snorri Sturluson ætlar sér að flytjast frá Borg
dreymir Egil Halldórsson, heimamann hans, að til sín komi nafni hans og
forfaðir Egill Skalla-Grímsson:
Hann mælti: „Ætlar Snorri frændi vor í brott héðan?“
„Það er satt,“ segir Egill.
„Það gerir hann illa,“ segir draummaðurinn, „því að lítt hafa menn setið yfir
hlut vorum Mýramanna þá er oss tímgaðist og þurfti hann eigi ofsjónum yfir
þessu landi að sjá.“
Egill kvað vísu:
Seggr sparir sverði að höggva.
Snjóhvítt er blóð líta.
Skæröld getum skýra.
Skarpr brandr fékk þar landa,
skarpr brandr fékk mér landa.
(211-212)
Skáldið og hetjan Egill er hér sýnilega nýtt til að gefa skáldinu Snorra
einkunnir og þá kanski af því að sagnritarinn hefur treyst sér illa til að gefa
þær í eigin nafni. En hvaða sögu segir það, að Guðrún Gjúkadóttir skuli
síðar birtast í draumi Jóreiðar og fella þar dóma um nafngreinda menn líkt og
Egill í draumi nafna síns fyrr? Eigum við að draga þá ályktun að sami
sagnritarinn sé að verki þar eð sömu tækni er beitt? Sturla hefði þá sennilega
samið báða draumana, þar eð enginn efast um að hann hafi samið þann hluta