Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 281
Fjögur bréf um Jóreiðardrauma
279
Þorgils til norðurfarar með Þorvarði m.a. með þessum orðum: „Þorvarður
sýnir nú og allan sinn styrk. Vænist hann og öngra manna liðveislu. Má þá
sjá hversu óráðlegt er að fara með alllítinn afla á svo stórar sveitir."
(Sturlunga II. 1988, 687) Þegar Þorgils er skömmu síðar ráðinn til fararinnar
er hann hins vegar sagður hafa brýnt Sturlu með svofelldum orðum:
„...Þykir mér og þig til draga nokkuð fyrir þann skaða óbættan er þú hlaust
í brennu á Flugumýri og drápi Halls mágs þíns...“ (skál. mitt) (Sturlunga II,
1988, 688). Ef við tökum frásögnina góða og gilda, er Þorgils greinilega
vísvitandi að koma við kaunin á Sturlu. Þegar hugsað er svo til þess að
Jóreiðardraumar eru í íslendinga sögu nánast í beinu framhaldi af Þverár-
fundi, þar sem Þorvarður hefur vegið Eyjólf Þorsteinsson, sjálfan forsprakka
Flugumýrarbrennu, er þá óeðlilegt að Þorvarður skipi háan sess í
draumunum?
Ég spyr sjálfa mig enn og aftur, hvort Jóreiðardraumar endurspegli kristið
siðamat Sturlu á atburðum ársins 1254-55 líkt og ýmsir fyrri draumar í
safninu. Það má ekki gleymast hversu öndverður hann var Þorgilsi skarða
frænda sínum í upphafi og hve seint hann fékkst til að ganga til sátta við
hann. Hvernig hefði hann sjálfur lýst þeirri atburðarás sem Þorgils saga
skarða er ein til frásagnar um? Fannst honum e.t.v. að ofmetnaður og ójafn-
aður einkenndu Þorgils ekki síður en Sturlu á Sauðafelli fyrrum? Það virðist
ekki fráleit hugmynd en hvernig skal þá túlka ummæli draumanna um
Gissur? Þú telur að lokahluti þeirra sé of hallur undir Haukdæli til að geta
verið saminn af Sturlu. Það er rétt - ef við göngum út frá að ummæli
Guðrúnar um persónurnar endurspegli í einu og öllu viðhorf og óskir
sagnritarans. En hvað ef draumarnir eru að hluta tilraun hans til að segja fyrir
um framtíðina? Má ekki vera að Sturla hafi verið orðinn sannfærður um að
Gissur yrði í krafti eiginda sinna sá er færi með sigur af hólmi í
valdabaráttunni? Og hvernig gat hann þá tjáð slíkar hugmyndir betur en með
draumsögn þar sem hann segir ekki sjálfur fyrir um atburði heldur leggur
sagnapersónu orð í munn - og gerir hana hliðholla andstæðingunum?
Nú veit ég reyndar að hugmyndir þínar um ritara Jóreiðardrauma fá
stuðning af ýmsum nýlegum skrifum um Sturlungu, t.d. að hluta af verkum
Ulfars Bragasonar, og vera má að frekari rannsóknir leiði í ljós að útilokað sé
að Sturla sé höfundur þeirra. Túlkun þín á vísunni um Brand örva og Hákon
vekur hins vegar upp þá spurningu, hvaða sagnritari á 13. öld hafi ekki aðeins
haft vald á sömu „draumatækni“ og Sturla, heldur og verið jafngott skáld og
hann og verið tilbúinn til að yrkja inn í frásagnir sínar eins og við vitum að
Sturla gerði í Hákonar sögu og mig grunar að hann hafi gert í Islendinga
sögu. Túlkunin vitnar sumsé ekki bara fagurlega um þig; hafi höfundur
vísunnar hugsað á þeim brautum sem þú hyggur hefur hann ekki verið neinn
meðalleirhnoðari. Snorri er því miður dauður þegar hér er komið sögu og
hvar eru sagnritararnir sem ráða yfir lærdómi þeirra Hvammverja,
frásagnarlist - og skáldgáfu? Komdu með þá og ég skal taka þeim fagnandi