Skáldskaparmál - 01.01.1992, Blaðsíða 284
282
Um biskur
og Haraldi, skeði atburður, sem átti eftir að draga langan slóða þungra örlaga og
jafnframt grípa inn í hina almennu landssögu, langt út fyrir raðir þeirra aðila, sem hér
um ræðir. Fylgdarmaður einn í liði Þórðar, Hrani Koðránsson, laust Filipus á Hvoli
með keyri eins og þræl, og hefði af orðið áverki, ef Þórdís húsfreyja hefði ekki
brugðið við hendi og borið af honum höggið. Með þessu framferði hafði öll ætt
hinna stoltu Oddaverja verið srnánuð." (10)
Já, hvorki meira né minna en allir Oddaverjar smánaðir, ekki hafa þeir nú þolað
mikið. Síðan liðu tvö ár. Þeir bræður, Filipus tengdafaðir Odds Þórarinssonar og
Haraldur eru þá drukknaðir, Þórður kakali farinn úr landi og átti ekki afturkvæmt til
íslands en hafði sett hina og þessa frændur sína, vini og tengdamenn yfir ríki sitt,
meðal annars Hrana Koðránsson yfir Eyjafjörð. Þá er það sumarið 1252 að Oddur
fær Hrana dæmdan á alþingi sekan skógarmann, að því er Sturlunga segir, fyrir það
eitt er hann laust Filipus keyrishögg.
Ég verð nú að játa að þessu hef ég aldrei trúað. Mér finnst það ekki ná nokkurri
átt að Hrani hafi verið dæmdur sekur skógarmaður fyrir eitt andskotans svipuhögg
sem þar að auki missti marks. Hitt þykir mér trúlegt að Hrani hafi þarna í raun verið
dæmdur fyrir aðför Þórðar að Hvoli því það að stefna með her manns að heimili
annars var litið mjög alvarlegum augum á þessum tímum og mörg dæmi um mikil
málaferli út af slíkum aðförum. En nú var Þórður farinn úr landi enda vonlítið að
koma lögum yfir hann, svo voldugur sem hann var, en Hrani orðið að gjalda þess að
vera líklega næstæðsti maður í liði Þórðar í aðförinni. Keyrishöggið hefur síðan verið
notað sem sönnun þess að um ofbeldisheimsókn að Hvoli var að ræða þótt vopnum
væri ekki beitt.
Hvað um það, tveim árum seinna þegar Oddur Þórarinsson er orðinn
bandamaður Gissurar og fer með stjórn yfir Skagafirði, tekst honum loks að komast
í færi við Hrana úti í Grímsey og stúta honum þar.
Sigurður ályktar að þessi saga, svo og bandalag Odds við Gissur, hafi valdið því að
tengsl þeirra bræðra Odds og Þorvarðs slitnuðu, og Oddur komst í andstöðu við
aðra frændur sína, meðal annarra Brand Jónsson ábóta, föðurbróður þeirra bræðra.
Nei, ég leyfi mér að fullyrða að upphafið að sorgarsögu Odds sé annað og meira
en þetta keyrishögg, nefnilega deilur þeirra bræðra við frændur sína, Sæmund og
Guðmund Ormssyni.
Við skulum líta í bók Sigurðar en þar segir hann í þriðja kafla: „En þeir höfðu þá
þegar lent í deilu við frænda sinn, hinn upprennandi höfðingja Svínfellinga, Sæmund
Ormsson. Hann hafði gengið Þórði Sighvatssyni á hönd og Þórður gift honum
bróðurdóttur sína. Sæmundur var ofsamaður mikill, óeirinn og óbilgjarn. Haustið
1250 var svo mál þetta tekið til meðferðar á alþingi og var það lagt í gerð Þórðar
kakala. En það var þannig vaxið, að þeir bræður höfðu fengið tvö goðorð í hendur
eftir föður sinn, sem Ormur faðir Sæmundar hafði gefið honum (þ.e. Þórarni). Tvær
systur höfðu átt goðorðin, en erfingjar þeirra töldu þau hafa verið gefin í
heimildarleysi og fékk því Sæmundur tilkall til þeirra. Varð um mál þetta þóf mikið
og veitti Sæmundi jafnan betur. Dreginn var saman liðsafnaður og lá við bardaga, þó
ekki yrði af.
Þetta sumar hafði Þórður kakali falið ýmsum höfðingjum ríki sitt á hendur og
farið utan á konungsfund. Vorið 1251 hófust svo deilurnar að nýju. Þá urðu þeir
bræður, Þorvarður og Oddur, sekir um hernað á alþingi. Þegar hér var komið
sættust þeir frændur á að setja niður deilu og varpa um það hlutkesti hver dæma