Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 288
286
Um bækur
Nú skyldi maður halda að Þorvarður brygði við hart og leitaði hefnda eftir bróður
sinn, mannhefnda eða að minnsta kosti fjárbóta. Til þess sýnist hann nógu voldugur,
auk sambands síns við Finnbjörn frænda sinn, höfðingja Þingeyinga. En Þorvarður
fer sér að engu óðslega og það er ekki meira af honum að frétta í Islendingasögu
Sturlu svo heitið geti. En nú tekur Þorgils saga skarða við þar sem segir ítarlega frá
samskiptum þeirra frændanna, Þorgils og Þorvarðar.
Sigurður gerir enga tilraun til að finna út hvað fyrir Þorvarði hafi vakað með
bandalagi sínu við Þorgils, nema hvað hann telur höfund sögunnar ljúga með
þögninni og segja ekki frá samningum þeirra þess efnis, að yrði þeim sigurs auðið á
þeim félögum Eyjólfi og Hrafni þá myndu þeir skipta með sér ríki, Þorgils fá
yfirráð í Skagafirði en Þorvarður Eyjafirði. (21) Þetta verður að teljast mjög líklegt að
hafi verið ætlun Þorvarðar í ljósi þess sem seinna gerðist, og kemur þá einkum upp í
hugann þegar Þorvarður allt í einu rétt fyrir Þverárbardaga segist vera fús að sættast
við Eyjólf Þorsteinsson ef hann fari utan og láti lausar sveitir.
Hins vegar er ekki líklegt að um neina slíka samninga hafi verið að ræða. Við
skulum átta okkur á hvers vegna. Þeir Þorvarður og Finnbjörn koma að austan með
100 manna lið illa búið og ekki líklegir til stórræða, enda treystu þeir sér alls ekki í
norðurferðina án fulltingis Þorgils og Sturlu sem lengi vel virðast tregir til, ef ekki
hefði verið draumur Þorgils um yfirráð í Skagafirði, ættarveldis móðurættar hans,
það er að segja Ásbirninga. Úrslitum réði þó Brandur ábóti sem beinlínis hvatti til
þessarar ferðar til hefnda eftir Odd frænda sinn, þótt hann í öðru orðinu þættist sem
guðsmaður ekki vilja eggja þá.
Nú verður Þverárbardagi þar sem úrslit urðu þau að Eyjólfur var drepinn en
Hrafn hrakinn á flótta. Þá fara þeir Þorvarður og Þorgils að reyna að ná völdum
norður þar, fyrst í Eyjafirði þar sem þeir hafa fund með bændum og Þorvarður
býður sig fram til höfðingja. En eyfirskir bændur segja þvert nei undir forystu
Þorvarðar í Saurbæ. Engu breytti þótt Sturla og Þorgils væru að hjálpa til og aðstoða
Þorvarð í framboðinu með einhverjum ræðuhöldum enda fannst Þorvarði lítið til um
aðstoð þeirra. Hvað um það, Eyfirðingar þverneituðu.
Þá var röðin komin að Þorgilsi að ganga í augun á Skagfirðingum og hafi hann
haldið að það yrði auðvelt hefur hann brátt komist á aðra skoðun, því bændur
neituðu honum lengi vel þótt endirinn yrði sá að þeir tækju við honum, mest fyrir
aðstoð Brodda á Hofi.
Það sem ég er að reyna að útskýra er einfaldlega það að um raunverulega
samninga milli þeirra Þorvarðar og Þorgils, þar sem hvor styddi hinn til valda, gat
ekki verið að ræða. Til þess yrðu þeir að kúga bændur með hervaldi og til þess höfðu
þeir engan styrk. Það sem hefur þó verið þyngst á metunum hvað Eyjafjörð varðar
hefur verið óttinn við Þórð kakala. Við getum rétt ímyndað okkur hversu
mjúkhentur Þórður hefði verið ef honum hefði enst aldur, komið heim og þeir
félagar búnir að drepa Eyjólf og kúga aðra bændur í Eyjafirði, ættarveldi Þórðar.
En Sigurður Sigurmundsson er á annarri skoðun og fer hinum verstu orðum bæði
um Þorgils skarða og höfund Þorgils sögu. Hann segir til dæmis þetta um söguna:
„Við hana er það að athuga, að þótt höfundurinn virðist fljótt á litið segja eindregið
kost og löst á söguhetjunni, þá dylst ekki við nákvæma athugun, að eftir því sem á
líður söguna kemur í ljós, að hún er ekki fyrst og fremst atburðasaga, heldur skrifuð
til vegsemdar Þorgilsi." (20)
Ég tel þetta engar sérstakar fréttir, auðvitað er Þorgils saga skarða skrifuð til
vegsemdar um Þorgils skarða. En ekki hvern?