Skáldskaparmál - 01.01.1992, Side 289
Um bœkur
287
Og áfram heldur Sigurður: „Áróðursgildi sögunnar í heild er það þungt á
metunum, að ávirðingar Þorgils gleymast lesanda, og hann sér söguna alla í heild frá
sama brennipunkti, þannig að skuggarnir falli frá Þorgils á samtíðarmenn hans og þá
ekki síst Þorvarð Þórarinsson." (20)
Mig langar nú að spyrja, hvar er hægt að lesa um ávirðingar Þorgils annars staðar
en í Þorgils sögu? Og hvaða lesandi gleymir því við lestur sögunnar hvers konar
ribbaldi Þorgils hefur verið? Hitt er annað mál að það hefur löngum þótt kurteisi að
lofa mönnum, ekki síst löngu dauðum, að njóta sannmælis en á það finnst mér
einmitt skorta hjá Sigurði. Eða hvað finnst mönnum til dæmis um þessa klausu?: „En
svo slyngur er höfundur í þessari blekkingariðju sinni, að honum hefur tekist að
skapa um minningu þessa manns eins konar helgi eða dýrlingsljóma. Þó er það vitað,
að þessi maður sveifst einskis fyrir metorð og völd, að selja land sitt og þjóð erlendu
valdi.“ (20)
Hér eru nú heldur en ekki brúkuð hin breiðu spjótin og það án nokkurs
rökstuðnings. Sannleikurinn er sá að þess eru engin dæmi að Þorgils skarði reyndi að
koma landinu undir konung. Auðvitað var hann eindreginn konungsmaður,
sennilega einlægari aðdáandi Hákonar gamla en flestir íslenskir samtímamenn hans,
enda hreint engin furða, því það var ekki nóg með að hann ætti konungi alla sína
upphefð að þakka, heldur lét Hákon konungur líka lækni sinn gera að líkamslýti
hans, skarðinu ljóta sem hann hafði í efri vör og skóp honum ævarandi viðurnefni.
En um Þorvarð Þórarinsson segir Sigurður: „Það verður aldrei um deilt, að
enginn höfðingja þessa tímabils barðist eins einarðlega gegn íhlutun hins erlenda
valds á íslandi og Þorvarður Þórarinsson.“ (22)
Það er nú það. Það liðu nú samt ekki nema átta ár frá því að Þorvarður drap
Þorgils þar til hann sigldi á konungsfund og þáði sjálfur völd og metorð af konungi,
að vísu ekki af Hákoni gamla heldur Magnúsi syni hans. Og seinna varð hann meira
að segja hirðstjóri konungs á íslandi.
Mig langar aðeins að minnast á það atriði þegar Steinvör Sighvatsdóttir, systir
Þórðar kakala, fær Þorvarði í hendur Grund í Eyjafirði og þær heimildir er hún hafði
erft eftir Þórð sem nánasta skyldmenni hans skilgetið. En konungur skipaði Þorgils
yfir Eyjafjörð eftir andlát Þórðar. Auðvitað gat Steinvör ráðskast með Grund,
föðurleifð sína, en mannaforráð hafði hún ekkert með að gera. Þau voru alfarið í
konungshendi við fráfall Þórðar. í viðskiptum íslendinga við konung varð nefnilega
ekki bæði sleppt og haldið og næsta ólíklegt að Steinvör hafi ekki vitað það, hvað þá
Þorvarður.
Það er ekki til neins að tala eins og Þorvarður hafi ekki vitað að Þorgils var
konungsmaður fyrr en honum var skipaður Eyjafjörður, sem hann auðvitað tók við,
eins og allir höfðingjar tóku við metorðum úr hendi konungs. Og vitanlega vildi
Þorgils ekki sleppa Eyjafirði við Þorvarð enda vafasamt að hann hefði neinar
heimildir til þess. Aftur á móti vildi hann að Þorvarður fengi mannaforráð norðan
Eyjafjarðar, það er að segja ríki það sem Finnbjörn móðurbróðir Þorvarðar hafði
farið með, og sýnist manni þá ríki Þorvarðs orðin æði spilda. En það samþykkti
Þorvarður ekki „og fannst sér ekki boðið ef ekki væri Eyjafjörður" eins og segir í
Þorgils sögu.
Er ekki að orðlengja það að heift Þorvarðar til Þorgils magnaðist svo að hann
ákveður að fara að honum að nóttu til og drepa hann.