Skáldskaparmál - 01.01.1992, Side 290
288
Um bcekur
Hann flytur stutta ræðu yfir fylgdarmönnum sínum þar sem hann lýsir fyrirætlun
sinni og endar á því að segja: „Nú ef nokkur er sá hér er mér vill eigi fylgja segi hann
til þess nú.“ (735)
Við skulum halda áfram frásögninni með orðum Sigurðar: „Einn fylgdar-
mannanna sagði: „Fyrir sakir míns herra Hákonar konungs og löguneytis við Þorgils
mun ég frá ríða og kalla þetta hið mesta níðingsverk, sem þér hafið með höndum."
Þorvarður mælti: Eigi gengur þér drengskapur til þótt þú ri'ðir frá.“ Athyglisvert er
við þessa frásögn að svar Þorvarðar er hárrétt og hittir beint í mark. Manninum gekk
ekki drengskapur til eða persónulegt viðhorf til þessa verks, sem í vændum var,
heldur konungshollusta." (23-24)
Mig langar nú að vita hvaðan í ósköpunum Sigurði kemur sú vissa hvað
manninum gekk til í afstöðu sinni til þessa níðingsverks án þess að rökstyðja það. En
það er um mann þennan að segja að hann hét Jörundur gestur og kemur við sögu í
Þverárbardaga því það var nefnilega hann sem hljóp aftan á Eyjólf Þorsteinsson og
felldi til jarðar og hélt honum meðan Þorvarður og Kimbi murkuðu úr honum lífið.
Jörundur var hirðmaður Hákonar konungs og hefur greinilega metið það mikils, en
auk þess var hann það sem kallað var lögunautur Þorgils skarða, það er að segja þeir
höfðu svarið hvor öðrum trúnaðareiða í hirð konungs, voru með öðrum orðum eins
konar fóstbræður. Mér finnst því engin ástæða til að ætla að manninum hafi gengið
annað til en nákvæmlega það sem hann sagði: „Fyrir sakir míns herra ... og
löguneytis við Þorgils."
En Sigurður heldur áfram og lýsir í fáum orðum aftöku Þorgils, hvernig
Þorvarður sendi svikara heim að Hrafnagili til að fylgjast með hvar hverjum var vísað
til sængur, laumast síðan út og skilja eftir opinn bæinn þegar allir væru sofnaðir. Þetta
gekk allt að óskum fyrir Þorvarði því Þorgils lét allar viðvaranir sinna manna um
hættu sem vind um eyru þjóta og neitaði að trúa að frændi hans og fyrrum
vopnabróðir byggi yfir þvílíkri fúlmennsku. Þessa afstöðu Þorgils kallar Sigurður
„grunnhyggni og sjálfbyrgingsskap." Þorgils hefði mátt vera ljóst að Þorvarður væri
of stór og ríklundaður til að sætta sig við konungsskipan Þorgils yfir Eyjafirði. Þetta
er einmitt mergurinn málsins og við getum kallað það grunnhyggni eða barnaskap.
En mannkynssagan er nú einmitt full af dæmum um menn sem ekki trúðu öðrum til
illra verka fyrr en um seinan. Þorgils sjálfur var ekki þannig maður. Um það höfum
við vitni Sturlu frænda hans. Þegar boðaður hafði verið sættafundur milli Hrafns
Oddssonar og manna Þorgils hins vegar en hann ekki viðstaddur sjálfur. Hrafn var
fullur tortryggni og hélt að verið væri að lokka hann í gildru, Þorgils biði átekta með
her og myndi ráðast á hann. En Sturla kvað það fjarri fara, slíkt væri ekki í skapi
Þorgils að svíkjast þannig að mönnum. (611)
Sigurður telur það „furðu gegna“ að menn Þorgils skyldu ekki reyna að verja hann.
Þetta kalla ég að skjóta yfir markið. Hvernig í ósköpunum áttu mennirnir sem
vöknuðu við það að komnir voru vopnaðir menn inn á gólf að rísa upp vopnlausir og
fáklæddir og verjast. Og þótt Þorgils yrði á að spyrja, þegar þeir drógu hann
helsærðan fram skálann á Hrafnagili, hvar sínir menn væru þá lýsir það hvorki
vantrausti á þá eða skilningsleysi á aðstæðum, heldur örvæntingu dauðvona manns
sem brýst í höndum kvalara sinna.
Og svarið sem hann fær, síðustu orðin sem hann heyrir í þessu lífi, er frá frænda
hans og fyrrum vini, sem annarri hendi hélt undir brókarbelti Þorgils en með hinni
lagði sverði sínu á hol: „Þessa skaltu nú fyrir þína menn hafa.“ (736)