Skáldskaparmál - 01.01.1992, Síða 293
Um bækur
291
„ákaflega líkur öðrum félagsgerðum sem vitað er að hafa verið til og hafa raunar
verið rannsakaðar gaumgæfilega“ (bls. 76). Frásagnir í Islendingasögum og Sturlungu
eru oft furðu áþekkar etnógrafískum lýsingum frá samfélögum í öðrum heims-
hlutum, eins og mannfræðingar hafa gjarna bent á, meðal annars Turner og
Durrenberger - ekki síst lýsingum á málaferlum og vopnaskaki í „höfuðlausum“
(acephalous) samfélögum. Sérstaklega þótti mér umfjöllun Millers um viðskipti
athyglisverð. Hér byggir hann einkum á innsæi Marcel Mauss og Aarons Gurevich,
sem þáðir hafa fjallað um lýsingar á gjafaskiptum í íslenskum fornritum. Einnig þótti
mér athyglisverð umræða höfundar um sæmd og mannjöfnuð. Miller rekur ágætlega
hugmyndir Islendinga um slík fyrirbæri á dögum þjóðveldisins og bendir jafnframt
á að hliðstæðar hugmyndir megi merkja víða annars staðar í heiminum þar sem
blóðhefnd tíðkast.
Verk Millers er hins vegar alls ekki hnökralaust. Hann hefði til að mynda mátt
gæta meiri varúðar í samanburði sínum; sérstaklega hefði hann mátt skilgreina nánar
hvað hann á við þegar hann talar um samfélög „á svipuðu þróunarstigi í verklegum
og menningarlegum efnum“ (bls. 46). Frá sjónarhóli mannfræðings er samanburður
Millers ekki nægilega markviss og nákvæmur, hann teygir sig stundum full langt í leit
sinni að dæmum um samfélög sem fara „áþekkar" leiðir við að leysa ágreining.
Glannalegur samanburður er stundum réttlætanlegur til að varpa nýju ljósi á þau
fyrirbæri sem verið er að kanna, en ef einungis er um lítilvæg atriði að ræða í
félagsfræðilegum skilningi eða yfirborðskennd menningarsamkenni er hætt við að
hann verði hrein „frímerkjasöfnun“, svo gripið sé til þekktrar líkingar úr orðræðu
mannfræðinnar. Blóðhefnd er beitt í margs konar samfélögum, en þau þurfa að eiga
sitthvað fleira sameiginlegt ef þau eiga að geta talist „sambærileg“ við íslenska
þjóðveldið. Þó gengur Miller ekki eins langt í þessum efnum, að mínu mati, eins og
til að mynda Carol Clover.
Ég hygg að það hefði verið höfundi lærdómsríkt að leggja meiri áherslu á
samfélög höfðingja og stórmenna (í bókmenntunum er gjarna talað um „Big Men“,
„Great Men“ og „Chiefs"), samfélög þar sem ójöfnuður ríkir en ekkert
miðstjórnarvald er fyrir hendi, en um þau hafa verið skráðar miklar bókmenntir. Það
hefði vafalaust dýpkað umfjöllun hans um stjórnmál og lög annars vegar og hins
vegar félagslegar breytingar á tímum þjóðveldisins. Islenski goðinn á margt
sameiginlegt með höfðingjum og stórmennum annarra samfélaga og fræðilega
umræðan um þá síðarnefndu hefur verið afar frjó uppá síðkastið, einkum í
rannsóknum á samfélögum Indjána á norðvesturströnd Bandaríkjanna (Kwakíútl,
Tlingit o.fl.) og, ekki síður, í rannsóknum á samfélögum Nýju Gíneu (Enga, Maring
Tsembaga o.fl.); sjá t.d. athyglisvert greinasafn um þau síðarnefndu, Big Men and
Great Men, sem Maurice Godelier og Marilyn Strathern ritstýra (Cambridge
University Press, 1990).
Rannsókn Millers á meðferð deilumála er augsýnilega undir miklum áhrifum frá
mannfræðirannsóknum, ekki síst ritum Max Gluckmans og þeirra sem oft hafa verið
kenndir við svonefndan Manchester-skóla, eins og höfundur tekur sjálfur fram.
Hann hefur hins vegar horft fram hjá mörgum athyglisverðum rannsóknum
mannfræðinga á þjóðveldinu og Islendingasögum. Það skýtur til dæmis skökku við,
að höfundur skuli vitna í verk Victor Turners um Ndembu-fólkið í Afríku en leiða
hjá sér að fjalla um merka grein sem sami höfundur skrifaði um Njáls sögu og
þjóðveldið, í bókinni The Translation of Culture (T. O. Beidelman (ritstj.), Tavistock,
1971).