Skáldskaparmál - 01.01.1992, Page 295
John Miles Foley: Immanent Art: From Structure to Meaning in
Traditional Oral Epic. Bloomington og Indianapolis: Indiana University
Press 1991, 278 bls.
GÍSLI SIGURÐSSON
Á undanförnum árum hefur John Miles Foley sent frá sér hverja bókina á fætur
annarri um rannsóknir í anda munnlegu kenningarinnar sem kom fram árið 1960 og
kennd hefur verið við þá Milman Parry og Albert B. Lord. Slíkar rannsóknir
byggjast á samanburðaraðferð sem felst í því að nota reynslu manna af lifandi
munnlegri hefð til að varpa ljósi á forna texta sem hafa sótt mikið af orðfæri og
efnivið sínum í glataða munnlega hefð. Foley hefur m.a. tekið saman rækilega
ritaskrá, skrifað rannsóknarsögu og birt eigin athuganir auk þess að ritstýra
greinasöfnum og tímaritinu Oral Tradition sem hóf göngu sína árið 1986.
I einni af nýjustu bókum sínum, Immanent Art: From Structure to Meaning in
Traditional Oral Epic, fjallar Foley um það hvernig eigi að túlka hefðbundin
orðlistaverk sem eigi rætur að rekja til munnlegrar hefðar. Hann telur að við túlkun
slíkra verka þurfi að nota aðrar aðferðir en bókmenntafræðingar hafa þróað við
greiningu meðvitaðra höfundarverka og bók Foleys er mikilsvert spor í þá átt að
byggja nýjan grunn undir rannsóknir á fagurfræði texta sem byggja á munnlegri
frásagnar- og kvæðahefð. I seinni hluta bókarinnar beitir Foley þeim aðferðum sem
hann kynnir, á a) kvæði kristinna og múslima í Serbó-Króatíu, b) Illíonskviðu, og c)
Bjólfskviðu. Á sviði íslenskra fornbókmennta hefur mikið verið ritað um munnlegan
uppruna sagna og kvæða og því skipta fræði Foleys ekki síður máli fyrir okkar arf og
ættu að geta nýst vel til skilnings á list íslenskra fornbókmennta.
Fastmótuð bygging hefðbundinna verka og formúlur í munnlegum orðlista-
verkum eru vel þekkt fyrirbæri sem e.k. hjálpartæki til flýtisauka í munnlegum
flutningi. En Foley gengur lengra, segir hlutverkið miklu veigameira og spyr hvernig
þessir þættir hafi áhrif á sjálfa merkinguna. Lærimeistarinn Milman Parry lagði
áherslu á bragfræðilegt hlutverk formúla í Hómerskviðum en gagnrýnendur hans
vildu halda á loft listgildi kviðanna og töldu það ekki geta farið saman við mikla
formúlunotkun. Gagnrýnendur Parrys lögðu formúlur að jöfnu við vélræna mál-
notkun fastra orðasambanda sem drægi óhjákvæmilega úr listgildi og sjálfstæðri
hugsun í kviðunum. Menn gætu því ekki bæði verið að rannsaka munnmenntir og
bókmenntakenningar; annað hvort væri áhersla lögð á notagildi formúlu í bragnum
eða fagurfræði. En Foley hafnar þessari skiptingu mjög eindregið og segir að spurn-
ingin snúist ekki um munnlegt=vélrænt=ólistrænt andspænis bóklegt=skapandi=-
listrænt heldur það hvort við höfum nóga góða aðferðafræði til að nálgast hina
varðveittu texta og skýra hvernig hægt sé að tjá jafn margt og raun ber vitni innan
þeirra þröngu marka sem munnleg hefð setur þeim verkum sem verða til í henni.
í stað þess að spyrja hvað sé sagt vill Foley spyrja: Hvernig er hið sagða sagt?
Hefðarverk eru ekki alls óskyld höfundarverkum sem sækja merkingu sína í eigin
texta, en þau eru ólík höfundarverkunum að því leyti að þau vísa ævinlega til
þekkingar áheyrenda á hefðinni sem þeir eru hluti af eða þátttakendur í, þannig að
slík þekking er forsenda þess að þeir geti notið listarinnar í hefðarverkum. Bygging
og orðfæri eru hefðbundin og þá líka listræn brögð og merkingarsköpun þannig að
hefðbundið orðfæri kallar alla hefðina fram í vitund áheyrenda hverju sinni. Sú
aðferð lifir að vísu inn í rithefðina, sem sýnir að aðferðin virkar áfram í ritverkum, en