Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1991, Blaðsíða 73
Samstarfsmaður og vinur
kommúnismanum í framkvæmd og séð, hve vonir hans höfðu brugðizt
hrapalega.
Þá var hann maður til þess að viðurkenna, að sér hefði skjátlazt og
hann hefði ekki spáð rétt um framtíðina. Og hann varð jafn skeleggur í
baráttunni gegn Maó og flokksbræðrum hans, eins og hann hafði áður
bundið við þá miklar vonir.
Þannig kom hann mér fyrir sjónir. Hann var hreinn og beinn, lýsti
skoðun sinni af einurð og festu og vék ekki frá því, sem hann taldi rétt,
þótt móti blési.
Persónulegt þakklæti
Ég gæti lengi enn haldið áfram að rekja fleiri drætti þeirrar myndar, er
ég geymi af vini mínum — Jóhanni Hannessyni.
Eg gæti fjallað um prédikun hans. Hann var ekki einn af þessum
hrífandi prédikurum, sem ná að vekja mikinn tilfinningahita hjá
áheyrendum sínum. En hann var alltaf fræðandi — ég fór ætíð fróðari
heim, eftir að hafa hlustað á prédikim hans.
En hér mun ég láta staðar numið.
Þessum orðum var ekki ætlað að vera fræðileg úttekt á lífi og starfi
Jóhanns Hannessonar. Hitt langaði mig til þess að gjöra, að minnast hans
fáeinum orðum. Ég naut vináttu hans frá því fundum okkar fyrst bar
saman.
Við áttum trúarlega samstöðu og vorum sammála um meginatriði
kristinnar trúar. Hann var einn af stofnendum Kristilegs stúdentafélags.
Ég var formaður þess veturinn 1947-48, er hann kenndi fyrir Sigurbjöm
Einarsson í guðfræðideildinni.
Enginn skuggi féll á vináttu okkar og samstarf, meðan báðir lifðu.
Mér var það ómetanlegt að eignast hann að samverkamanni í
guðfræðideildinni. Hann studdi mig jafnan með ráðum og dáð, bæði til
þess að fá stöðu við deildina og eins eftir að samstarf okkar þar hófst.
Og Jóhann stóð ekki einn í starfi. Hann átti við hlið sér þá konu, sem
var honum fyllilega samboðin — fullur jöfnuður var með þeim. Gildir
það bæði um starfstíma þeirra í austurlöndum fjær og starf þeirra á
Islandi. Og Astrid er orðin íslenzk kona í beztu merkingu þess orðs. Hún
hefur kosið að ljúka ævinni hér á landi. Mér finnst íslenzk þjóð standa í
þakkarskuld við hana.
Ég minnist fjölmargra heimsókna á heimili þeirra hjóna. Þangað var
ætíð gott að koma, hvort sem kaffið var drukkið í hópi góðra vina inni í
stofu eða ég sat með kaffibollann hjá húsráðendum einum frammi í
eldhúsi. Ég fór ætíð ríkari frá þeim en ég kom.
Jóhann gaf sér ætíð tíma til þess að hlusta á kvabb yngri
samstarfsmanns og jafnan hafði hann eitthvað gott til málanna að leggja.
71