Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Blaðsíða 14
13
er í eins konar samræðu við.18 Þannig er tvísæið innbyggt í formið.19
Tíminn einn sem hefur liðið milli atburðar og frásagnar getur enn fremur
orðið til þess að skapa íronískar kringumstæður eins og glöggt má sjá í 13.
aldar frásögn um flutning Arnórs jarlaskálds á kvæðinu Blágagladrápu árið
1047 þar sem segja má að söguhöfundur Morkinskinnu og áheyrendur séu
saman í liði þar sem þeir vita að Blágagladrápa hefur gleymst síðan hún
var flutt en það vita persónur frásagnarinnar, skáldið sjálft og konungarnir
tveir, ekki þó að annar þeirra spái því að kvæðið muni gleymast.20 Slíkt
samsæri mælandans og sumra áheyrenda (þeirra sem „fatta djókinn“ eins
og Megas hefði orðað það) er lykilþáttur í allri íroníu.
Þannig má segja að tvísæið í íslenskum miðaldasögum skapist iðulega
bæði í málinu og í kringumstæðunum. Vera má að það sé einnig tilvist-
arlegt og um það snýst þessi rannsókn. Þó að mikill áhugi hafi lengi ríkt
bæði á persónum Íslendingasagna og orðræðu þeirra er ekki þar með sagt
að mikil fræðileg skrif séu til um það efni en hér verður einmitt gerð slík
tilraun til að kafa ofan í orðræðu einnar persónu og einkum verður sjónum
beint að íroníu í máli hennar. Í kjölfarið verður rætt hvort tvísæið í málinu
endurspegli ef til vill tilvistarlegt tvísæi sem lið í lýsingu persónunnar og
þá um leið boðskap sögunnar.
2
Skarphéðinn njálsson er ein þekktasta persóna Íslendingasagnahefðarinnar.
Hans er þó hvergi getið annarstaðar en í Brennu-Njáls sögu nema ef til vill
í Landnámabók.21 Það þarf þó ekki endilega að merkja að engin manneskja
með þessu nafni hafi verið til á söguöld og enn síður að ekki hafi verið til
frásagnarhefð um Skarphéðin á miðöldum sem hafi verið þekkt og nýtt
18 Sbr. Vésteinn Ólason, Samræður við söguöld: Frásagnarlist Íslendingasagna og fortíð-
armynd, Reykjavík: Heimskringla, 1998, bls. 19–20. Vésteinn er illu heilli frekar
stuttorður um þessa samræðu og ræðir þannig ekki það tvísæi sem hún skapar en
segir þó á einum stað: „Ekki virðist hægt að finna rök fyrir því í textum Íslend-
ingasagna að afstaða höfundanna til efnisins hafi nokkurn tíma verið fullkomlega
íronísk“ (bls. 188).
19 Eins og Vésteinn Ólason hefur bent á gildir hið sama um Snorra Eddu („List og
tvísæi í Snorra Eddu,“ Gripla 12 (2001), bls. 41–65).
20 Sjá m.a. Ármann Jakobsson, „Um hvað fjallaði Blágagladrápa?,“ Guðrúnarstikki
kveðinn Guðrúnu Nordal fimmtugri 27. september 2010, Reykjavík: Menningar- og
minningarsjóður Mette Magnussen, 2010, bls. 11–14.
21 Brennu-njáls saga, Íslenzk fornrit XII, útg. Einar Ólafur Sveinsson, Reykjavík: Hið
íslenzka fornritafélag, 1954, bls. 71 nmgr. 1 og 3.
SKARPHÉðInn TALAR