Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Blaðsíða 20
19
þá frelsun sem felst í íronískri afstöðu: hún auðveldar Skarphéðni að leika
hlutverk manns sem er í góðu jafnvægi og afslappaður þó að undir niðri
kraumi tilfinningarnar.41 Ef til vill mætti láta detta sér í hug veruleikaflótta
en málið er þó varla svo einfalt, eins og síðar verður vikið að.
4. 45. kapítuli: „Sjáið ér rauðalfinn?“ segir Skarphéðinn þegar njálssynir
sjá Sigmund í litklæðum. Einar Ólafur Sveinsson kallar þetta „háðsyrði,
búið til í líkingu við svartálfr“,42 en það segir varla alla sögu. Ekki er vitað
til þess að álfur hafi verið notað sem hnjóðsyrði á þessum tíma þó að
svo hafi orðið síðar.43 Þvert á móti gæti Skarphéðinn verið hér að vísa
til yfirburðastöðu álfa sem hafi meiri krafta en menn og séu æðri þeim.44
Litklæði þóttu afar fín og enn fínna væri þá að vera álfur í litklæðum en
þegar Skarphéðinn notar þetta um Sigmund gæti tilgangurinn verið sá að
hæða hann með lofinu, svipað og þegar nútímamenn kalla einhvern „snill-
ing“ og meina hið gagnstæða.45 Um leið vekur orðið hugrenningatengsl
um misræmið milli fagurra klæða Sigmundar og þeirra voðaverka sem
senn munu fara fram,46 og dregur þá ef til vill einnig fram andstæða merk-
ingu rauða litarins á klæðunum og þess blóðs sem Skarphéðinn hyggst
úthella.
5. 59. kapítuli: Í upphafi deilna Gunnars á Hlíðarenda við syni Starkaðar
og Egils býðst Skarphéðinn til að keyra hest vinar síns á hestavígi og segir
41 Þetta er reyndar frásagnarminni í sögunni og nákvæmlega sömu togstreitu tilfinn-
inga og jafnaðargeðs má sjá síðar í sögunni hjá Flosa á Svínafelli sem beitir þó ekki
íroníu til að fjarlægja sig eins og Skarphéðinn.
42 Brennu-njáls saga, bls. 115 nmgr. 7.
43 Sbr. Jón Árnason, Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri, 1. bindi, Leipzig: J.c. Hinrichs,
1862, bls. 1: „En nú er sá álfur nefndur, er hjákátlegur þykir til orðs og æðis“.
44 Á miðöldum er merking orðsins álfur svo fjölbreytt að einna helst er hægt að draga
hana saman þannig að álfur sé „yfirnáttúruleg vera sem menn heita á og telja að
hafi krafta til að hjálpa þeim“ en ekki er hægt að ganga út frá því að það sé á þeim
tíma hálfgert tegundarheiti, eins og á dögum Jóns Árnasonar. Álfar eru tengdir við
sjálfa guðina, þeim eru færðar fórnir og þeir eru taldir hafa kynjakrafta eða galdra
(sjá m.a. Ármann Jakobsson, „The Extreme Emotional Life of Vǫlundr the Elf,“
Scandinavian Studies 78 (2006), bls. 227–54).
45 Slík merkingarþróun hefur seinustu áratugi orðið á orðinu mannvitsbrekka sem
núna er oft notað íronískt um einhvern sem þykir ósnjallur (íronísk notkun orðs-
ins blandaðist í sögufræg málaferli árið 1975) en ekkert bendir til þess að sú sé hin
upphaflega merking orðsins. Sjá nánar Else Mundal, „Tilnamnet mannvitsbrekka,“
Opuscula 9 (1991), bls. 127–39.
46 orðið „voðaverk“ getur verið tvírætt og skv. Ólafi Halldórssyni báru 13. aldar menn
fullt skynbragð á gildi þeirrar margræðni („Morgunverk Guðrúnar Ósvífursdóttur,“
Skírnir 147 (1973), bls. 125–28).
SKARPHÉðInn TALAR