Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Blaðsíða 258
257
að telja sig hafa meiri hlutlæga þekkingu á hópi sem verið er að rannsaka,
en sá hópur hefur á sjálfum sér. Það er ekki gott að segja hvort eigi að telja
þessa stöðu íroníska eða ekki, eða hvort hún er bara íronísk frá ákveðnu
sjónarhorni. Íronía eins er alltaf mögulega einlægni annars. Spurningin
um að hafa forgang að skilningi og geta eignað sér hann þarfnast umhugs-
unar þar sem hún varðar kjarna þess sem mannfræði snýst um, í hvaða
anda skuli stunda hana og, raunar, hver viðhorfin eru til þess sem hún
fjallar um. Það veltur svo á svarinu við þessari spurningu, hvort mannfræði
sé í eðli sínu íronísk grein og hvort hlutskipti mannfræðingsins sé, þegar
öllu er á botninn hvolft, óhjákvæmilega íronískt.
Hvað varðar tengdan vanda um flokkunarforgang vaknar spurningin
um réttinn til að flokka „hinn“ jafnvel þó að hópurinn sé ósáttur við þá
flokkun og hún setji þá sem henni tilheyra í lakari stöðu. Eins og áður var
minnst á eru það oft þeir sem standa höllum fæti sem beita íroníu og storka
flokkunum þeirra sem forganginn hafa. Rétturinn til „hetjuflokkunar“,
svo Vico sé hafður í huga (en að hans mati er það hlutverk „hetja ímynd-
unaraflsins” að flokka tilveruna), hefur lengi verið miðlægur og eðlilegur í
rannsóknum og skilningi félagsvísindanna. En það er einkenni þeirra íron-
ísku tíma sem við lifum á að draga þann rétt í efa og benda á að honum geti
fylgt gáleysi eða dulin markmið.45
Þessa hefur sérstaklega gætt í Bandaríkjunum á síðustu árum í tengslum
við flokkanir eftir kynþáttum og uppruna sem beitt er við jákvæða mis-
munun (e. affirmative action). Þeir sem eiga að njóta góðs af þeirri félags-
legu aðgerð hafa dregið í efa að til hennar sé einungis gripið af góðum
huga. Rökin eru þau að það sem klisjan segir að sé jákvæð og gagnleg
aðgerð reynist vera skaðlegt í dýpri skilningi (þegar horft er á viðhorf)
og þjóni, með íronískum hætti, duldum markmiðum. Samkvæmt þeim
rökum stuðlar hún, óafvitandi eða vitandi vits, að því að viðhalda ójafnræði
í samfélaginu.46 Hugmyndin um samsekt í samfélagslegum aðgerðum, þ.e.
45 Hér mætti jafnvel leggja til „skilyrðislaust skylduboð“: „Setjið aðra í flokka aðeins
að því marki sem þið eruð sjálf tilbúin til að vera sett í slíka flokka“ (Fernandez
„Moving Up in the World: Transcendence in Symbolic Anthropology“, Stanford
Literature Review, 2/1984, bls. 224). Þetta íroníska skylduboð sem væri, svo ekki
sé meira sagt, félagsvísindum fjötur um fót, er útgáfa af hinni þekktu, og mjög svo
íronísku, athugasemd Grouchos Marx, um stigveldið sem ætíð er til staðar í sam-
félagslegri flokkun, að hann „vildi ekki vera meðlimur félags sem vildi hafa hann
sem meðlim“!
46 Virginia Dominguez, „A Taste for the other: Intellectual complicity in Racializing
Practices“, Current Anthropology 35, 4/1994, bls. 333–48.
„MAnnFRÆðI ÍRonÍUnnAR“