Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Blaðsíða 215
214
hvers sem hefur raunverulegt eðli. Frumspekingurinn heldur enn fast við
heilbrigða skynsemi, þar sem hann dregur ekki í efa tuggurnar sem stýra
notkun tiltekins endanlegs orðaforða. Síst efast hann um þá tuggu að á bak
við hinar margvíslegu birtingarmyndir hlutanna megi finna einn einstakan
og varanlegan raunveruleika. Hann reynir ekki að endurlýsa (e. redescribe)
en greinir fremur gamlar lýsingar á grunni annarra gamalla lýsinga.
Íronistinn aftur á móti aðhyllist í senn nafnhyggju og söguhyggju (e.
nominalism, historicism). Hann telur ekkert hafa innri náttúru, raunverulegt
eðli. Þegar orð eins og „réttlátur“, „vísindalegur“, eða „skynsamlegur“
birtast í endanlegum orðaforða hans gefur það honum enga ástæðu til að
ætla að rannsókn í anda Sókratesar á eðli réttlætis, vísinda eða skynsemi
nái lengra en málleikur samtímans leyfir. Íronistinn hefur fremur áhyggjur
af því að hann hafi lent í röngum ættbálki og verið kennt að leika vitlausan
málleik. Hann óttast að félagsvæðingin sem gerði hann að manneskju með
því að gefa honum tungumál kunni að hafa látið honum í té rangt tungu-
mál, og þar með ekki gert úr honum rétta tegund af manneskju. En hann
getur ekki sett fram mælikvarða á hið ranga. Tilhneiging hans til að gera
grein fyrir stöðu sinni með tungutaki heimspekinnar, þegar hann þarf að
grípa til orða á borð við „Weltanschauung“, „horf“, „díalektík“, „hugtaka-
rammi“, „sögulegt tímabil“, „málleikur“, „endurlýsing“, „orðaforði“ og
„íronía“ minnir hann stöðugt á rótleysi sitt.
Frumspekingurinn svarar svona tali með því að segja það fela í sér
afstæðishyggju og hamra á því að málið snúist ekki um hvaða tungumál
sé notað heldur hvað sé satt. Frumspekingar halda að maðurinn hafi nátt-
úrlega þekkingarþrá. Þetta telja þeir stafa af því að orðaforðinn sem þeir
hafa erft, heilbrigð skynsemi þeirra, birti þeim mynd af þekkingu sem
ákveðnum tengslum á milli mannvera og „raunveruleika“ og sýni þannig
að við höfum bæði þörf fyrir og skyldu til að mynda slík tengsl. Myndin
segir okkur einnig að „raunveruleikinn“ geti, ef réttra spurninga er spurt,
gert okkur kleift að ákvarða hvernig endanlegur orðaforði okkar eigi
að vera. Frumspekingar halda því að í heiminum utan okkar séu hlutir
sem hafa raunverulegt eðli og að skylda okkar sé að finna þessa hluti og
að þeir kunni jafnvel að stuðla sjálfir að því að okkur takist að finna þá.
Frumspekingar halda ekki að hægt sé láta nokkuð líta vel eða illa út með
því einu að búa til nýja lýsingu á því – eða, ef þeir gera það, harma þeir þá
staðreynd og halda sig fast við hugmyndina um að raunveruleikinn muni
bjarga okkur frá slíkum villum.
RIcHARD RoRTY