Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Blaðsíða 31
30
það og aðstæður sem þetta þrennt þrífst við.2 Það eru ekki ný tíðindi að
húmor sé þáttur í samskiptum, skiptum mannsins við heiminn, sjálfan sig
og aðra; ekki heldur að textar eigi líf sitt undir því að einhverjir meðtaki
þá og leggi sitt til merkingar þeirra. En þótt taka megi undir að húmor sé
aldrei einvörðungu bundinn tilteknum texta, snýst málið líka um hvort
höfundur setur þannig mark á verk sín að í þeim megi finna vísbendingar
til lesenda – til dæmis um að þeir eigi fremur að glotta en fyllast andakt.
og þá víkur sögunni aftur að hægra ennisblaðinu í Sigfúsi Daðasyni. Ég
hef ósjaldan brosað og hlegið yfir ljóðum hans og ég held að það hafi ég
gert af því að ég hef reynt að fylgja vísbendingum hans. Skopskyn markaði
ríkulega samtöl Sigfúsar við veröldina. Því ætla ég fyrst að ræða dálítið um
hlátur, eða réttara sagt þau skyldmennin, húmor og íroníu, einkum sem
þátt í vitsmunastarfi manna er einkennir bæði daglegt mál og skáldskap
– þó að ýmsir rækti þau einatt markvissar í skáldskap. Þá hyggst ég taka
dæmi af þremur ljóðum Sigfúsar og sýna hvernig hugsanir hans geta kætt
menn eða gengið þeim nærri, vísað ímyndunarafli þeirra í ýmsar áttir og
opnað þeim nýja sýn. Endahnútinn ætla eg hins vegar að binda með því að
drepa á merkimiðann sem gjarna hefur verið settur á Sigfús í
bókmenntasögunni og afstöðu skáldsins sjálfs til hans en víkja í framhaldi
af því að skopskyni og raunsæi.
II
Hvað gerist innra með mönnum þegar þeir bregða fyrir sig húmor og
íroníu? Fyrr á tíð er eins víst að svarið hefði einatt verið: oflætið, fíflskan
eða illgirnin hafa náð tökum á þeim.3 En til eru hugmyndir af öðrum toga,
2 Amy Thomas carrell setti fram viðtakendakenninguna um húmor í máli (e.
Audience Based Theory of Verbal Humor) í doktorsritgerð sinni við Purdue University,
,,Audience/community, situation and language: A linguistic/rhetorical theory of
verbal humor“ árið 1993. Seinna hefur hún t.d. skrifað grein um húmorsamfélög
(e. humor communities) með hliðsjón af hugmyndum M. Jimmie Killingsworth um
staðbundin og alþjóðleg orðræðusamfélög, sjá Amy carrell, „Humor communi-
ties“, Humor 1/1997, bls. 11–24.
3 Ýmsir þekktir heimspekingar hafa verið kenndir við yfirburðakenningarnar eða nið-
urlægingarkenningarnar svokölluðu um hlátur, sem gera ráð fyrir að þegar menn
hlæi njóti þeir yfirburða sinna og niðurlægi aðra. Platon og Aristóteles hafa verið
dregnir í þennan dilk en helsti fulltrúi þeirra er þó Thomas Hobbes sem taldi að
hlátur fæli í sér að menn fyndu skyndilega til eigin ágætis andspænis breyskleikum
annarra. Sjá t.d. Michael Billig, „Laughter and Superiority“, Laughter and Ridicule:
Towards a Social Critique of Humour, London, Thousand oaks og new Delhi: Sage
Publications 2005, bls. 37–55. Þegar kristni kom til sögunnar var smám saman
BeRglJót S. KRiStJÁnSdóttiR
módernisti