Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Blaðsíða 81
80
inu, var fyrirsögn á kafla í borgarvæðingunni og sá lestur sem fyrirsögnin
bauð upp á var stýrandi og óboðlegur. Íslendingar voru vendilega fjötraðir
við forna tíð sem gekk í bága við hugmyndir um framþróun. Aðeins fáein-
um árum fyrr hafði Laxness tjáð sig um svipað efni sem er freistandi að
setja í samhengi við það sem var að eiga sér stað. Hann skrifar:
Hvað vitnar um hnignun þjóðernis, ef ekki það að leita einkenna sinna
mörg hundruð ár aftur í tímann, að skreyta sig með nátthúfum lánga-
fanna? Hvað ljósara merki um skort á nýum lífsstraumum en að apa
liðna tíð? Hvað er að vera tröll og daga uppi, ef ekki það? Fortíðarstátið
er ellimerki, en meðan maðurinn minkast síns fyrir fortíð sína, þá er
hann á veginum fram, og svo er um þjóðirnar. Fornir sigrar eru skuggar
einir ef nútíminn ljómar ekki af nýjum dáðum.77
Reykvíkingurinn sætti sig ekki við að láta erlenda stórþjóð skilgreina sig, því
það gat hann gert upp á eigin spýtur. Færa má rök fyrir því að Íslendingar
hafi hingað til gert tilkall til eignarhalds á Leifi og hægt sé að líta svo á að
gjöf Bandaríkjamanna styrki þá kröfu, en við nánari athugun stendur eftir
að Leifur var í raun Grænlendingur sem rambaði á Ameríku og gekkst
norskum konungi á hönd, smíðaður í Bandaríkjunum, af Ameríkana og
nú skyldi hann vera prentaður á íslensk póstkort um allar aldir. nú skyldi
hann vera maðurinn sem allir ólæsir og erlendir myndu máta Íslendinga
við – af því Bandaríkjamenn vildu það.
Einna merkilegast er þó að „valdhafarnir“ eins og þeir eru nefndir í
blaðagreininni hér að framan, þeir sem fara með mál bæjarins, láta sig
engu varða þó að Leifur hafi verið gerður að hlandkoppi gesta og gang-
andi – vikum, mánuðum, árum saman – og gera sig með því samseka
helgimyndabrjótunum upp að ákveðnu marki. Bandaríkjamönnum sjálfum
mun hins vegar hafa blöskrað svo „umgengnin við styttuna fyrstu árin að
brugðið var á það ráð að setja vörð um styttuna“.78 Þessi styttuvörður stóð
vaktina fram undir stríð og sá til þess að Leifur stæði flekklaus í stafni.
Leifur er því eina styttan í Reykjavík sem sérstakur vörður hefur verið
staðinn um. Því er kannski ekki að undra að maður spyrji: hvers var verið
að gæta og af hverju?
77 Halldór Laxness, Heiman ég fór, bls. 61.
78 Höfundur óþekktur, „Styrkar stoðir undir Leifi heppna“, bls. 7.
KJaRtan MÁR óMaRSSon