Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Blaðsíða 67
66
um hvað á þá að lesa í að Skólavörðunni, sem hafði staðið tæp tvö hundruð
ár, eina „alvöru“ minnismerki Íslendinga, var hreinlega rutt burt til að gjöf
Bandaríkjamanna kæmist fyrir?29 Það er Leifur sem stendur efst á stall-
inum. Vegfarandinn lítur upp til táknmyndarinnar og í stað þess að vera
hafinn upp, finnur hann til smæðar sinnar. Hann verður þolandi en ekki
gerandi, andlag en ekki frumlag í yrðingu borgarinnar. Borgarinn verð-
ur ekki handhafi augnaráðsins líkt og áður heldur viðfang þess. Hann er
sviptur valdi sínu, var meistari en er orðinn þræll. Skólavarðan og Leifur
hefðu aldrei getað staðið saman því þau eru ósamrýmanleg, annað miklar
manninn en hitt smækkar hann. Maðurinn getur ekki verið stór og smár í
senn.
Af dagblaðaskrifum manna frá upphafi þriðja áratugarins má merkja
vissa óþreyju eftir minnisvörðum sem bera vott um menningarstig þjóð-
arinnar. Segja má að íslenskum ráðamönnum hafi verið mikið í mun að
sýna hvers þeir voru megnugir. Þá sárvantaði að geta aðgreint sig frá þjóð-
um sem voru álitnar „lægra settar“. Vandinn var aftur á móti sá, að til þess
að aðrar þjóðir gætu upplifað andlegt menningarstig íslensku þjóðarinn-
ar var nauðsynlegt að viðkomandi kynni að lesa íslensku og hefði hvort
tveggja tóm og þroska til þess að geta metið helstu afrek þjóðarinnar að
verðleikum.30 Það voru því aðeins fáir útvaldir sem skipuðu þann hóp og
vart vegur fyrir almenning af erlendu bergi brotinn – ólæsan á íslenska
tungu – að mynda sér aðra skoðun en þá að Íslendingar væru menningar-
lausir. Þar af leiðandi var full þörf fyrir eitthvað sem var aðgengilegra en
29 Skólavarðan, þrátt fyrir að vera ekki opinbert minnismerki, reist til minningar um
eitthvert tilfelli eða persónu, vann sér engu að síður ákveðinn sess í hugum fólks
og mætti með fullum rétti kalla minnismerki, eins og sjá má af þessum útdrætti:
„Hún er, eins og nafnið bendir ótvítrætt á, tengd við menningu þessa lands. Saga
hennar, sem að nokkru leyti er skráð, en að nokkru verður að lesast milli línanna,
ber vott um íslenskt lundarfar, dug og þrautseigju eins og það var hér áður þegar
menn töluðu færra, en framkvæmdu þó. Þegar kröfurnar til lífsþæginda voru naum-
ast fæddar. Þegar mentaþráin varð að vera nægjusöm ef hún átti að fá nokkuð til
að svala sér á. Fákunnáttu og heimskulegan sparnað þekkir Skólavarðan, en líka
trygð og manndáð. Ber byggingarsaga hennar vott um stefnufestu, framkvæmd og
óeigingirni og verður því, um leið og hún er sögulegt minnismerki Reykjavíkur-
bæjar, minnismerki um einstaklingstrygð og manndáð“. Höfundur óþekktur, „Fyr
og nú“, Brautin, 15. mars 1929, bls. 1.
30 Hér ber að benda á að á þessum tíma var búið að þýða eitthvað af Sögunum og eins
mátti lesa um þær í endursögnum. Það breytir því hins vegar ekki að það krafðist
vissrar sérþekkingar á íslenskri menningu og þjóð áður en hægt er að benda á þessi
verðmæti. Það sem hér er átt við er eitthvað sem getur virkað samstundis og án
fyrri þekkingar.
KJaRtan MÁR óMaRSSon