Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2015, Blaðsíða 102
101
Ríkið hefur samkvæmt skilgreiningu einkarétt á beitingu ofbeldis.
ofbeldi ríkisins er hins vegar miklu útbreiddara en þær einstöku aðgerðir
þegar lögreglan er raunverulega send á vettvang til frelsissviptingar með
handafli. Það liggur í raun alls staðar. Peningar fela til dæmis alltaf í sér
hótun um ofbeldi: ef þú vinnur þér þá ekki inn geturðu ekki verið viss um
að fá að borða. Það er fyrsta hótunin. Ef þú skuldar pening og borgar ekki
getur lögreglan að endingu ruðst inn hjá þér og tekið af þér heimilið. Það
er önnur hótun. Í hvert einasta sinn sem við eigum viðskipti erum við að
hegða okkur í samræmi við skilmála sem er þvingað upp á okkur af ofbeld-
isgengi – ríkinu. Brellan á bak við lýðræðissamfélög felst auðvitað í að
sannfæra okkur um að það séum við sjálf sem hótum okkur, svo það virðist
til lítils að kvarta undan því.
Í tilfelli lista, þá er það ekki síst í krafti ofbeldis gegnum peninga sem
fólk verður fyrir ritskoðun – og helst þá gegnum fjárveitingarvald hins
opinbera, sem er gríðarmikið vald í litlu landi. Leiðréttu mig ef mér skjátl-
ast, Snorri, en svona hefur það horft við mér. Ritskoðunin snýst aftur á
móti oft minna um hvað er sagt en hvernig það er sagt. Það var munurinn
á Kópernikusi og Galileó. Sólmiðjukenning Kópernikusar vakti lítinn usla
þar til áratugum síðar þegar Galileó setti hana fram á alþýðumáli, ítölsku,
í stað menntamálsins latínu, svo sannfærður og sannfærandi að hann fékk
Páfagarð upp á móti sér. Sama á við um ritskoðun á Íslandi. Málið gegn
Þorgeiri Þorgeirsyni, sem hann fór með fyrir Mannréttindadómstólinn á
níunda áratugnum, snerist um dónalega orðfærið sem hann beitti. Hann
hafði eftir fólki að sumir íslenskir lögreglumenn væru óargadýr í einkenn-
isbúningum. Hann hefði líklega komist upp með að benda á lögreglu-
ofbeldi með kurteisislegra orðfæri, en þetta orðalag þótti fara yfir strikið.
Það er merkileg viðkvæmni.
Sama gildir auðvitað um lög gegn guðlasti, sem enn gilda í landinu:
mér skilst að dæmt hafi verið á grunni þeirra tvisvar. Fyrst gegn Brynjólfi
Bjarnasyni árið 1925, síðan gegn Úlfari Þormóðssyni vegna skopmynda í
Speglinum, 1983. Brynjólfur var dæmdur fyrir orð sem birtust í ritdómi
hans um Bréf til Láru, meðal annars að Guð almáttugur væri ekki annað
en hégómagjarn og öfundsjúkur harðstjóri og óþokki. Guðfræðingar og
heimspekingar hafa sett fram þúsund álit á Guði eða guðshugtakinu án
þess að það hvarfli að nokkrum manni að dæma þá fyrir, enda haga þeir
máli sínu kurteisislega. Þegar mál er sett fram á almannafæri og hryss-
ingslega, þannig að það gæti haft áhrif út fyrir raðir verndaðra vinnustaða,
ÍRonÍA, TJÁnInGARFRELSI oG LEYFIð TIL Að SJÁ