Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1995, Page 45
MÚLAÞING
43
var eins og skrjáfaði í skrokk hennar, líkt og heyrist í brynjuðum kindum
þegar þær eru á ferð. Einnig sá hann sér til mikillar undrunar, að það var
eins og glampaði á skeljar utan á skrokk dýrsins er þær endurköstuðu
geislum frá tunglinu.
Fyrst þegar Eiríkur sá dýrið virtist það standa á fjórum fótum, en svo
reisti það sig upp, eins og það stæði á afturfótunum, og fór að vappa
kringum skreiðarhjallinn, rétt eins og það hefði hug á að ná sér í skreið.
Eiríki datt líka í hug ísbjörn, en hann hafði ekki heyrt getið um hafís
neins staðar við landið um þetta leyti. Ekki gat hann heldur séð neina
rófu eða tagl á dýrinu. Liturinn virtist vera grágulur eða hvítgulur, en
það var ekki gott að átta sig á litnum vegna geislanna sem endurspegluð-
ust frá tunglinu af skrokki dýrsins. Þess skeljaskrápur líktist því ekki
bjamarfeldi.
Eftir að Eiríkur hafði virt dýrið fyrir sér um stund, virtist það veita
honum eftirtekt, stara á hann nokkur augnablik, en svo tók það á rás að
sniðgötunni upp á melhomið.
Eiríkur vildi ekki bíða þessarar skepnu og tók til fótanna heim á leið
eins hratt og hann gat.
Þegar hann var kominn að sundinu milli Kletthúsanna, leit hann um
öxl og sá þá að dýrið var komið upp á melhornið og stefndi á eftir hon-
um. Virtist honum skepnan slengjast áfram á fjórum fótum, ekki ósvipað
og hestur valhoppar, og var á því mikil ferð. Herti nú Eiríkur enn ferð-
ina. Þegar hann kom heim í túnfótinn, sá hann hvar skepnan fór neðan
við neðra Kletthúsið og stefndi inn túnbakkann neðan við bæinn. Þegar
hann kom í hlaðið austan frá, sá hann hvar hún var að koma upp á
bakkabrúnina skammt norðvestan við bæinn.
Eiríki tókst að komast í bæinn og loka rammlega bæjardyrunum áður
en skepnan kom í hlaðið. Heimilisfólkið varð allt dauðskelkað þegar það
sá Eirík hendast inn úr dyrunum æstan og undarlegan. Sagði hann þá frá
tíðindum. Hjálpaðist svo heimilisfólkið að við að bera kistur að útidyra-
hurðu og aðra hluti til að fylla upp í bæjargöngin, svo að inngangan
reyndist örðugri fyrir skepnuna ef hún bryti upp bæjardyrnar. En til þess
kom ekki. Fólkið þorði ekki að hafa nokkurs staðar ljóstýru eða láta það
minnsta til sín heyra af ótta við þessa óþekktu skepnu. Það heyrði glöggt
að traðkað var kringum bæinn, líkt og stórgripur væri þar á ferð. Og einu
sinni heyrði það að gengið var uppi á þekjunni. Óttaðist það mjög að
hún brotnaði undan þunga skepnunnar.
Eftir alllangan tíma hætti fólkið að heyra nokkurn umgang úti. Leið
svo af nóttin, að engum kom dúr á auga.