Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1995, Blaðsíða 121
MÚLAÞING
119
eg tók ekki þátt í dansinum. Minn tími fór í að ræða við menn sem
höfðu verið við sjóróðra á Suðumesjum og vildu fá fréttir þaðan.
Þegar klukkan var orðin tólf vildi ég fara að hugsa til heimferðar. Júlí-
us var samþykkur því, en fylgdarmaður okkar vildi vera lengur.
Lagt var af stað kl. 12.30, og komu tveir Borgfirðingar með okkur á
hestum.
Við komum til Brúnavíkur kl. 2 um nóttina. Þar var tekið á móti okkur
með mikilli velvild, mjólk og brauð borið á borð. Þaðan var lagt af stað
gangandi, við komum að Glettingi kl. rúmlega 4 um nóttina.
Við vorum mjög ánægðir með ferðina. Hún heppnaðist vel, við orðnir
fróðari og höfðum bætt við þekkingu sem við áttum eftir að njóta seinna
á ævinni.
Svo vorum við dálítið montnir yfir því að verða fyrstir af okkur félög-
um að komast til Borgarfjarðar.
Einn sunnudaginn var farin skemmtiferð til Loðmundarfjarðar. Það
hafði frést að haldinn yrði þar dansleikur.
Trillubátur frá Borgarfirði var fenginn til þess að flytja fólk á staðinn.
I þessari ferð tóku þátt allir sunnanmenn nema tveir, einnig Borgfirð-
ingar nema tveir. Lagt var af stað frá Glettinganesi kl. 11 fyrir hádegi og
komið að Seljamýri í Loðmundarfirði kl. 1.15, en þar átti að halda sam-
komuna fyrir nærsveitir. Við fengum gott ferðaveður, mátti heita logn,
en töluverð þoka spillti útsýninu.
Á Seljamýri var stórt og vandað íbúðarhús, sem rúmaði margt fólk,
enda kom það í ljós að fólk vissi um þetta heimili sem samkomustað.
Þetta virtist einnig vera hið mesta stórbýli. Þegar við komum var ekki
margt fólk mætt, en fjölgaði fljótlega. Var okkur sagt að margir Seyð-
firðingar og fólk úr nærsveitum væri hér saman komið.
Samkoman fór vel fram, fluttar þrjár ræður, ein fyrir minni Islands,
önnur fyrir minni Loðmundarfjarðar og hin þriðja um skólamál. Síðan
var dansað á eftir af miklu fjöri og var mikil þátttaka.
Lagt var af stað heim kl. átta og komið að Glettingi kl. 10.30.
Þessi ferð heppnaðist vel. Eg er glaður yfir því að hafa fengið tækifæri
til þess að kynnast Austfjörðum. Þegar eg lít til baka, þá er mér þessi
Loðmundarfjarðarferð sérstaklega minnisstæð.
Áður en við sunnanmenn fórum að heiman, var ákveðið að þegar
byggingu Glettinganessvitans væri lokið, þá yrði haldið til Raufarhafnar
til þess að byggja vita þar.
Um 20. ágúst var allri vinnu á Glettinganesi lokið, nema að ganga frá
ljóskeri vitans.