Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1995, Page 124
122
MÚLAÞING
fór ég í land og skoðaði mig um. Ekki fann ég mjög mikið fyrir svefn-
leysinu, því í tvö sumur áður hafði ég unnið í beinamjölsverksmiðju í
Neskaupstað og einnig á sjó, og hafði þá oft þurft að vaka tvo til þrjá
sólarhringa í einu.
Þegar komið var til Homafjarðar, þurfti skipið að bíða í 6 klukku-
stundir vegna straums í ósnum. Fóru þá þeir, sem rólfærir voru, í land og
leigðu sér vörubifreið með sætum á. Var síðan haldið heim að bæ í
sveitinni sem heitir Borgir. Ég var einn af þeim, sem þessa ferð fóru, og
einnig kom ég að Borgum tvisvar síðar, er ég var á leið til Reykjavíkur.
Þessi frásögn er því raunar um komuna til Borgar og bóndann og vís-
indamanninn sem þar bjó.
Á hlaðinu á Borgum tók bóndinn, Hákon Finnsson, á móti okkur opn-
um örmum og bauð okkur inn, þótt við værum á milli 20 og 30 í hópn-
um. Gaf hann okkur öllum skyr og rjóma og sýndi okkur bæði íbúðar-
húsið og gripahúsin, sem mér fannst sérstaklega nýtískuleg og sérkenni-
leg.
Þegar við vorum búin að þiggja góðgerðir og hann að sýna okkur
húsakynni úti og inni, ætluðum við að borga veitingamar, en við það var
ekki komandi.
Hákon spurði okkur, hvaðan við værum, og þegar hann fékk að vita að
ég væri sonur Stefáns frá Mýrum, ætlaði hann aldrei að sleppa mér frá
sér. Hann sagði að Stefán væri sinn besti vinur og sveitungi í þau 10 ár,
sem hann bjó á Arnhólsstöðum í Skriðdal.
í seinni ferðum mínum með viðkomu í Borgum gat ég sagt meira frá
föður mínum og bræðrum úr Skriðdalnum. Þá kynntist ég líka betur öll-
um heimilishögum Hákonar, og hann fræddi mig um hið gífurlega starf
sem hann hafði leyst af hendi í sambandi við ýmsar rannsóknir. T.d.
stundaði hann nákvæmar veðurathuganir. Mældi hann og skráði niður
vindhraða við bæinn á hverjum degi, hvað mikið rigndi daglega og hvað
margar klukkustundir og mínútur var sólskin yfir daginn.
Þó undraðist ég mest kartöflurannsóknir hans. Hann ræktaði á milli 30
og 40 tegundir af kartöflum, setti þær niður í reiti og mældi hvað mörg
kíló hann setti niður af hverri tegund, hvað mikill áburður fór í reitinn,
vigtaði svo uppskeruna úr hverjum reit og skráði niður, hvað hann hafði
verið lengi að taka upp úr reitnum. Einnig hafði hann sérstaka þró fyrir
hverja tegund. Ennfremur rannsakaði hann hvaða tegund var bragðbest.
Niðurstöður sínar kvaðst Hákon kynna Búnaðarfélagi Islands. Einnig
hafði Hákon á hendi í mörg ár tilraunir með ræktun og notkun áburðar
og í nokkur ár vann hann að tilraunum í komrækt.