Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1995, Blaðsíða 128
126
MULAÞING
minni sveitarinnar, og á eftir var sungið kvæði fyrir minni Fljótsdals, er
Hákon Finnsson hafði ort. Ennfremur talaði síra Þórarinn fyrir minni
kvenna, og á eftir sungið: „Fósturlandsins Freyja“.
Hákon Finnsson talaði langt erindi um menntalífið á liðnum öldum, og
loks var lesið upp og síðan sungið kvæði, er Páll Jónsson kennari á Ak-
ureyri hafði ort til samkomunnar.
Var að öllu þessu gjörður hinn besti rómur og klappað óspart.
Þess skal getið, að allur söngurinn í kirkjunni fór prýðilega fram undir
forustu Hákons Finnssonar, voru öll lögin sungin með fjórum röddum.
Síðast talaði alþm. Guttormur Vigfússon langt erindi um félagsskap og
samheldni yfir höfuð, hversu nauðsynlegur félagsskapur væri, og benti á
ýms atriði því til sönnunar hversu mörgu góðu félagsskapurinn hefði til
leiðar komið á liðnum öldum f ýmsum greinum, því næst minntist hann
á búnaðarfélag sveitarinnar, sem vera mundi með elstu búnaðarfélögum
landsins - stofnað milli 1840-1850 og sýndi fram á það hversu miklu fé-
lag þetta hafi til leiðar komið til hagsmuna fyrir sveitina, með aukinni
túna- og engjarækt. Loks minntist ræðumaður á hið nýstofnaða Búnað-
arfélag fslands, tilgang þess, skipulag o.fl. og hvatti menn til að ganga í
félag þetta, sem efalaust mundi með tímanum verða hin öflugasta stoð
landbúnaðarins á fslandi. 20-30 menn skrifuðu sig þá strax sem meðlimi
í Búnaðarfélag íslands.
Þegar ræðuhöldum var lokið var komið kvöld og farið að rökkva.
Gengu menn þá heim og hresstu sig á veitingum og skemmtu sér því
næst alla nóttina með samræðum, söng, dansi, tafli og spilum.
Lesinn var upp miðkaflinn úr verðlaunakvæði Einars Benediktssonar,
en þegar upplestrinum var lokið hrópuðu áheyrendurnir hugheilt: lengi
lifi skáldið Einar Benediktsson.
Til dæmis um það, hve þolnir söngmenn voru skal þess getið, að um
nóttina voru sungin 40 lög (7 með fjórum röddum, 13 með þremur og 20
með tveimur röddum).
Kl. 6 um morguninn bjuggust flestir til brottferðar, var þá komið þurt
og gott veður. Voru menn þá kallaðir saman á túninu. Þar talaði Hákon á
Klaustri um sönglistina yfir höfuð, hve fögur hún væri og jafnframt
gagnleg að svo miklu leyti sem skemmtanir gætu gagnlegar kallast.
Hvatti hann sveitarmenn til þess að ganga nú í söngfélag. Uppástunga
þessi fékk hinar bestu undirtektir, og skrifuðu 25 menn sig í félagið þar
á staðnum, þar á meðal sóknarprestur okkar, er einnig sagði félaginu
heimil hús sín og hljóðfæri kirkjunnar til afnota, við allar æfingar endur-
gjaldslaust.