Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.09.2009, Síða 35
Tímarit hjúkrunarfræ›inga – 4. tbl. 85. árg. 2009 31
Ritrýnd fræðigrein
gagnasafnins sem notað er við þessa rannsókn, enn fremur
að lýsa eftirlætisvistarverum skjólstæðinga hjúkrunarheimila til
dægrastyttingar og tómstundum sem þeir helst kjósa. Þannig
var reynt að varpa ljósi á hvaða þættir skipti mestu máli og
hvað gæti orðið til að auka virkni til dægrastyttingar og hvað
til að letja.
Dægrastytting er hluti af þeim virku athöfnum sem hver og einn
þarf á að halda til að lifa innihaldsríku lífi. Virkni vísar gjarnan
til þess að vera virkur við ýmsar athafnir svo sem vinnu eða
aðrar athafnir daglegs lífs, svo sem þvott, klæðnað o.s.frv. (Jón
Hilmar Jónsson, 1994; Mörður Árnason, 2002b). Þá vísar virkni
líka til þeirra virku athafna sem einstaklingur stundar sér til
afþreyingar og dægrastyttingar. Það er sú merking sem notuð
var í þessari rannsókn.
Dægrastytting merkir afþreyingu, dægradvöl eða skemmtun
(Mörður Árnason, 2002a). Það segir því til um hvernig fólk
styttir sér daginn með því að skapa sér ánægju, vellíðan og
innihaldsríkara líf.
Virginia Henderson (1976) skiptir frumþörfum sjúklinga
og einstökum þáttum almennar hjúkrunar niður og einn
þáttinn nefnir hún skemmtanir, „að taka þátt í ýmiss konar
skemmtunum eða dægradvöl“. Það sem hér er nefnt virkni til
dægrastyttingar kallar Henderson skemmtanir eða dægradvöl
og hún segir skemmtun eða leik venjulega hafa annan tilgang
en hin daglegu störf, þ.e. að láta tímann líða á ánægjulegan
hátt án þess að hafa annað að markmiði. Henderson segir líka
(1976) „Þeir sem eiga starfsgleði í ríkum mæli kunna því eflaust
illa að skörp skil séu dregin milli starf- og skemmtitómstunda.“
Rantz og Popejoy (2001) benda á að nýrri kenningar varðandi
virkni ganga út frá því að könnuð sé virkni og atburðir í lífi
eldri einstaklinga með þeim aðferðum að yfirfara lífshlaup
einstaklingsins og upprifjun minninga (reminiscence). Þær
aðferðir hafa rutt sér til rúms við umönnun aldraðra og þá
sérstaklega að því er varðar dægrastyttingu.
Virkni til dægrastyttingar á hjúkrunarheimilum á Íslandi hefur
ekki verið rannsökuð áður á þann hátt sem hér var gert. Hins
vegar hafa verið dregnar saman tölulegar niðurstöður úr árlegum
RAI-mælingum hér á landi sem hafa þá meðal annars sýnt
takmarkaða virkni meðal íbúa hjúkrunarheimila. Samkvæmt
skýrslunni Daglegt líf á hjúkrunarheimili (Anna Birna Jensdóttir
o.fl., 1995), sem byggðist á fyrstu mælingum sem voru gerðar
hér á landi með RAI-matstækinu árið 1994, voru 17,8%
íbúa í hjúkrunarrými á höfuðborgarsvæðinu virkir í daglegum
athöfnum en 13,4% í hjúkrunarrými á Akureyri. Milli 70 og 80%
þessara íbúa vörðu engum eða litlum tíma í virkar athafnir á
höfuðborgarsvæðinu en yfir 80% á Akureyri. Hjá báðum þessum
hópum voru eftirlætisvistarverur til virkni eigið herbergi og
flestir kusu að horfa á sjónvarp eða hlusta á útvarp. Höfundar
skýrslunnar benda því á að takmörkuð virkni íbúa í hjúkrunarrými
bendi til þess að á þessu sviði mætti bæta um betur.
Dægrastytting gerir oft kröfur um tíma til samskipta og samveru
bæði milli starfsfólks og heimilismanna svo og góðra samskipta
allra aðila við aðstandendur. Í rannsókn Ingibjargar Hjaltadóttur
(2001), þar sem líkamlega veikburða aldraðir á hjúkrunarheimili
voru spurðir hvað væri mikilvægast varðandi gæði lífs á
hjúkrunarheimili, kom fram að samskipti við aðstandendur
og starfsfólk skiptu miklu máli, auk þess að finna öryggi og
hafa eigið herbergi. Dobbs o.fl. (2005) athuguðu hvað gæti
orðið til að auka virkni á hjúkrunarheimilum og komust að
því að þátttaka fjölskyldu í félagslífi og í mati á virkni tengdist
meiri virkni heimilismanna. Sama gerðist ef starfsfólk hvatti til
aukinnar virkni.
Upprifjun minninga er ein af þeim aðferðum sem hafa verið
notaðar til dægrastyttingar á hjúkrunarheimilum. Á þeim
byggist sú upplýsingasöfnun sem aflað er nú orðið á mörgum
hjúkrunardeildum fyrir heilabilaða með svokölluðu æviágripi,
en upplýsingar um æviágrip skjólstæðinga eru nauðsynlegar
fyrir upprifjun minninga. Vegna skertrar færni heimilismanna
verður starfsfólk hjúkrunarheimila oft að treysta algjörlega
á upplýsingar um æviágrip frá aðstandendum við að meta
þarfir í tengslum við fyrri venjur, reynslu og sérkenni. Meðferð
með upprifjun minninga gerir kröfur til þess að starfsfólk gefi
sér tíma með skjólstæðingunum til að sinna dægrastyttingu í
þeim tilgangi að láta fólki líða vel og eiga innihaldsríkar stundir.
Sejeroe-Szatkowski (2002) bendir líka á að heilabilaðir, sem oft
eru óöruggir, muna fortíðina mun betur en nútíðina og upprifjun
minninga getur orðið til þess að þeir finni öryggi í tengslum við
eitthvað sem þeir þekkja.
Buettner og Kolanowski (2003) hafa bent á að leiðinn og
einangrunin, sem kemur til vegna skorts á dægrastyttingu,
geti leitt til hluta þess óróleika og óvirku hegðunar sem sést
hjá þessari kynslóð aldraðra með heilabilun. Heimilismenn,
sem eru órólegir eða í uppnámi, slaka betur á þegar notaðar
eru markvissar aðferðir til dægrastyttingar eins og tónlist,
snerting og handarnudd og það hefur síðan jákvæð áhrif á
vellíðan og samvinnu (Clark o.fl., 1998; Sambandham og
Schirm, 1995; Snyder o.fl., 1995). Rannsóknarniðurstöður
hafa enn fremur sýnt að heimsóknir aðstandenda hafa góð
áhrif á suma heimilismenn sem eru órólegir og að heimilismenn
eru frekar órólegir þegar þeir hafa ekkert fyrir stafni (Cohen-
Mansfield o.fl., 1992). Það er því mikilvægt að starfsfólk hvetji
aðstandendur til heimsókna og samskipta við sína nánustu á
hjúkrunarheimilum.
Vanda þarf vel til klínískrar greiningar á skorti á dægrastyttingu.
Það eykur líkur á að valin sé rétta eða hentugasta meðferðin.
Það sem einum finnst vera dægrastytting er ekki víst að annar
upplifi sem svo. Hjá einum einstaklingi gæti það að sitja og
horfa út um gluggann verið merki um leiða en öðrum þætti
það notalegt og liti á það sem hluta af sinni dægrastyttingu.
Starfsfólk þarf því ætíð að taka mið af hverjum einstaklingi fyrir
sig. Einnig er mikilvægt að taka mið af aðstæðum og ástandi
einstaklingsins hverju sinni, þ.e. hvað geta hans leyfir. Rantz
og Popejoy (2001) telja upp eftirfarandi neikvæð einkenni sem
geti fylgt ef skortur á dægrastyttingu er ekki greindur, þ.e. leiði,
minni lífsánægja, þunglyndi og frekari afturför í líkamlegu þoli,
samstillingu og vitsmunalegri getu.