Jón á Bægisá - 01.11.1994, Qupperneq 103
Óhljóðin í hausunum sjö tóku óskaplega á taugarnar og í stað milda ilmsins
af kölnarvatni fríða mannsins var kominn svo mikill brennisteinsfnykur að
ég tók andköf. Ég tók stökk afturábak, hrasaði um stól og skall kylliflatur á
gólílð.
„O, andskotinn!“ hrópaði ég upp yfir mig og á svipstundu var drekinn
horfinn, en fríði maðurinn stóð yfir mér. „Jæja, það er þá loksins runnið upp
fyrir þér,“ sagði hann og hjálpaði mér á fætur.
Ég stóð ekki uppréttur eitt andartak. Ég kann að játa mig sigraðan og féll
samstundis á kné. „Göfugi herra,“ sagði ég og vegna þess að röddin virtist
ekki skjálfa nógu eðlilega bætti ég svolitlum titringstón við með brögðum,
„göfugi herra, hvað þóknast yður?“
„Mér þóknast að þú standir upp og hættir þessum forneskjulegu látalátum,“
sagði andskotinn — því nú var orðið deginum ljósara hver gesturinn var. „Þið
vesælir dauðlegir menn haldið ykkur við það heygarðshorn að láta eins og
mér hafi ekkert farið fram síðan á sextándu öld. En ég lifi utan við tímann og
þess vegna er ég alltaf fyllilega í takt við hann.“
„Allt í lagi,“ sagði ég og reis á fætur, „hvað get ég gert fyrir þig? Það er
fyrirtaks kvöldverður til reiðu á efri hæðinni í bókasafninu, en ef þú hefur
meiri hug á einni fordæmdri sál eða svo, þá er útlátalítið að útvega þér
nafnaskrá háskólans með gagnleguin athugasemdum úti á spássíu.“
„Æ, æ, æ,“ sagði hann, „mikið hlýturðu að halda að ég sé ómerkilegur
andskoti. Ég kæri mig ekki um neinn af styrkþegunum þínum, og engan af
starfsbræðrum þínum heldur. Svoleiðis handverk læt ég starfsfólki mínu eftir.“
Afskaplega yfirþyrmandi hugsun — uppfullri af hégómaskap — laust niður
í huga minn. Ég reyndi að bæla ofdrambið í röddinni og hvíslaði: „Ertu þá
kominn að sækja mig?“
Andskotinn hló — það var silfurskært hæðnisfliss, ef þið getið gert ykkur
slíkt í hugarlund — og gaf mér glettnislegt olnbogaskot í bringuna. „Æ, láttu
ekki svona og hættu að fiska eftir gullhömrum,“ sagði hann.
Það var olnbogaskotið sem kom mér aftur á réttan kjöl. Mér hafði alltaf verið
sagt að andskotinn væri rusti inn við beinið og nú var hann búinn að sýna það
og sanna, svo ég varð óhræddari. „Jæja,“ sagði ég, „ég er viss um að þú ert ekki
kominn hingað að ástæðulausu og ef þú vilt ekki sálir — ekki einu sinni svo
ákjósanlega andlega eign sem mína eigin sál — hvað mætti þá bjóða þér?“
„Ekkert annað en að fá að skoða vel þessa snotru altarisbrík,“ svaraði hann.
„Þér finnst það vafalaust undarlegt, en á þessum árstíma, þegar allir eru að
halda jólin hátíðleg, þá verð ég svolítið angurvær. Ég heyri svo marga segjast
ætla heim um jólin. Veistu það, rektor minn, að mig langar svo mikið heim
um jólin.“
Ég var of háttvís til að svara.
„En mér verður auðvitað ekki boðið,“ sagði hann og varð svo viðkvæmnis-
legur og dapur á svipinn að fallega þóttafulla andlitið á honum ummyndaðist
í einhverja mestu hryggðarmynd sem ég hef nokkurn tíma augum litið.
Þegar ég var barn naut saga eftir Marie Corelli sem hét Sorgir Satans enn
mikillar hylli, en jafnvel henni hafði ekki fiogið í hug að eitt sorgarefnið væri
að vera ekki boðið heim um jólin.
á Jffiœp/'iá ~ LESIÐ MlLLl LÍNA
103