Þjóðmál - 01.12.2011, Qupperneq 53
52 Þjóðmál VETUR 2011
Að kvöldi 23 . febrúar 1921 hélt Sigurður
Grímsson á braut með Gullfossi og hafði
meðferðis eina ferðatösku, þriggja pela
flösku af neftóbaki og helstu nauðsynjar .5 Í
Höfn fór Brynjólfur með honum til fundar
við danska ungkommúnista, en síðan hélt
Sigurður í skoðunarferðir um borgina, fór
á söfn, í leikhús og á tónleika . Hann talaði
á fundi í Félagi íslenskra stúdenta 16 . mars
og sagði frá pólitíkinni heima á Íslandi,
skáldskap og andlegu lífi, einkum jóga og
guðspeki .6 Hinn 20 . mars héldu Sigurður
og Brynjólfur með lest til Gedser á Falstri,
þar sem þeir gistu um nóttina . Þaðan fóru
þeir með járnbrautarferju til Warnemünde
og áfram með lest til Berlínar, en á leiðinni
hittu þeir marga skrítna fugla . Um þetta
leyti hófst bylting kommúnista í Þýskalandi,
„marsuppreisnin“ svokallaða, en með
henni ætlaði Komintern að steypa þýsku
ríkisstjórninni .7 Þjóðverjar voru í uppnámi
vegna aðgerða kommúnista og mátti víða sjá
lögreglumenn á ferli í Berlín . Í marsmánuði
einum handtók lögreglan 3 .470 komm-
ún ista, felldi 145 þeirra í bardögum og
tölu verður fjöldi særðist . Nefna má til
samanburð ar, að í Spartakus -uppreisninni
1919–1920 féllu 32 kommúnistar .8
Willi Münzenberg og félagar hans höfðu
verið andvígir marsuppreisninni, því að
aðstæður væru óheppilegar til byltingar .9
Sigurður og Brynjólfur urðu þó ekki varir við
átök, þegar þeir komu til Berlínar 21 . mars
og fengu herbergi á Nordland-gistihúsinu
við Invaliden-stræti . Sigurður fylgdist fyrsta
kvöldið með iðandi mannfjöldanum á
Unter den Linden og naut lifandi tónlistar
á troðfullu Café Bauer, sem þá var eitt
vinsælasta kaffihús borgarinnar . Næsta dag
heimsóttu þeir félagarnir aðalskrifstofu KJI
til að láta vita af sér og innheimta risnuféð .
Þar var þeim sagt, að vegna óeirða, sem
kommúnistar hefðu verið viðriðnir, væri ófært
að halda þingið á Ítalíu og ætti að flytja það
til Þýskalands, þótt ástandið þar væri eldfimt
og kommúnistar undir smásjá lögreglunnar .
„Sögðu þeir okkur að gæta hinnar meztu
varúðar, og koma ekki í bækistöðvar þeirra
nema í brýnustu nauðsyn .“10
Á skrifstofu KJI í Berlín var Sigurður
kynntur fyrir helstu foringjum ung komm-
ún ista, þeirra á meðal Münzenberg og hægri
hönd hans, gjaldkeranum Leo Flieg .* En
sameiginleg vegferð Íslendinganna var á
enda . Brynjólfur sagðist ekki hafa ætlað að
sitja hið eiginlega þing, heldur koma Sigurði
„á framfæri og taldi þar með lokið erindi
sínu“ . Hélt hann því aftur til Danmerkur,
eftir nokkurra daga dvöl í Berlín .11 Annað
* Flieg féll í ónáð um svipað leyti og Münzenberg og
lést í fangelsi Stalíns 1939 . (Branko Lazitch, Milorad
Drachkovitch: Biographical Dictionary of the Comintern
(Stanford, 1986), 102 .) „Leo var afar einkennilegur maður,
grannur á vöxt, kinnfiskasoginn og fátæklega búinn,“ sagði
Sigurður Grímsson . „Hann er alvörugefnasti maðurinn,
sem ég hef fyrir hitt á lífsleiðinni, enda var aldrei svo glatt á
hjalla með hinum ungu mönnum, er ég var þar staddur, að
þá setti ekki hljóða, er hann bar að . Münzenberg var hins
vegar mesti galgopi, síkátur, fyndinn og skemmtilegur, enda
stórgáfaður .“ (Sigurður Grímsson: „Þegar ég vann björninn“
í Blaðamannabókinni (1949), 81–82 .)
Sigurður Grímsson .