Orð og tunga - 01.06.1998, Blaðsíða 46
34
Orð og tunga
b band, -s, bönd h 1 það sem bundið er með: ...
Við orðið strengur eru gefin samheiti en við orðið band er skýringin ‘það sem bundið
er með’. Mikil notkun samheita í skýringum hlýtur að setja sitt mark á þann orðaforða
sem í skýringunum birtist og eykur hann sennilega verulega.
Skipta má helstu aðferðum sem notaðar eru við afmörkun skýringarorðaforða í
orðabókum á þennan hátt:
1. Orðaforði í skýringum er algjörlega óheftur.
2. Orðaforði í skýringum miðast við almennt mál.
3. Orð sem notuð eru í skýringum verða að vera flettiorð í orðabókinni.
4. Orð sem notuð eru í skýringum verða að koma fram sem flettiorð í orðabókinni í
öllum þeim merkingum sem þau hafa í skýringunum.
5. Skýringarorðaforðinn takmarkast við ákveðinn orðafjölda.
Hér á eftir verður hver þessara aðferða skoðuð.
6.1 Óheftur orðaforði í skýringum
Fyrsta aðferðin í skýringunum er að setja skýringarorðaforðanum engin mörk. Orða-
forðinn í skýringunum er þá algjörlega óheftur og orðabókarmaðurinn hefur fullt frelsi
til að nota öll orð sem honum koma í hug án þess að reynt sé að koma böndum á
orðaforðann.
Dæmið sem ég ætla að nefna um orðabókarverk þar sem orðaforðinn er algjörlega
óheftur er orðabókarhandrit Jóns Ólafssonar úr Grunnavík enda þótt þar sé ekki um að
ræða einsmálsorðabók af því tagi sem hér er fjallað um. Grunnavíkur-Jón lætur sér ekki
duga eitt tungumál til skýringa, þ.e. latínu, heldur bregður fyrir sig skýringum á öðrum
málum, aðallega þó íslensku, athugasemdum, vísum og ýmsum fróðleik, lesendum til
mikillar skemmtunar. Það má hins vegar ætla að auðveldara hefði verið að gefa bókina
út ef handritinu hefði verið þrengri stakkur skorinn.
Eins og fram kemur hér á eftir má halda því fram að skýringarorðaforðinn í ÍO sé
óheftur, þótt ekki sé það nú að sama marki og hjá Grunnavíkur-Jóni.
6.2 Orðaforði í skýringum miðast við almennt mál
Oft er sú krafa gerð að orðaforði í skýringum sé bundinn við almennt mál þess sem
notar bókina og er þá miðað við móðurmálsbók. Orð verður þá að skýra með orðum
sem eru auðveldari en orðið sem verið er að skýra.
Hér er margt sem gæta þarf að:
1. Orð í skýringum eiga ekki að vera sjaldgæfari eða torskildari en orðin sem verið
er að skýra. Klassískt dæmi þar sem þessu er ekki sinnt er útskýringin á enska
orðinu fun sem hljóðar svo: