Orð og tunga - 01.06.2005, Blaðsíða 70
68
Orð og tunga
Oviedo (1996:130) að þegar skrattinn ætlaði sér að hræða líftóruna úr
indíánum þá hótaði hann þeim yfirleitt með huracán, en það orð þýðir
Oviedo í frásögninni sem 'fellibylur' og útskýrir jafnframt að það sé
svo ógurlegt fárviðri að fjöldi trjáa af öllum stærðum rifni upp með
rótum, og hús hrynji sem spilaborgir þegar það geisar.
Orðið mun „komið úr máli þjóðflokka í Vestur-Indíum" að því er
Asgeir Blöndal Magnússon telur (1989). Spænsku orðsifjafræðingarn-
ir Corominas og Pascual (1991-1997:429) segja orðið komið úr taínó,
tungumáli indíána sem bjuggu á Haítí, Puerto Rico, Kúbu, Jamaica og
öðrum Antillaeyjum þegar Spánverjar komu til Nýja heimsins í lok 15.
aldar.16 Það eru hins vegar skiptar skoðanir á því meðal fræðimanna
hver uppruni orðsins sé. Sumir telja orðið komið úr maya-mállýskunni
quiché sem var töluð á Yucatánskaga í Mexíkó, aðrir eru þeirrar skoð-
unar að orðið eigi rætur að rekja til einhverra hinna fjölmörgu indí-
ánamála sem töluð voru á Karíbahafssvæðinu (Corominas og Pascual
1991-1997:429; Ortiz 1984:97-106).17
Þetta orð barst inn í ýmis tungumál í Gamla heiminum, ýmist í
gegnum þýðingar eða bein samskipti. Þá er þar fyrst að geta frönsk-
unnar, en elsta dæmi þess þar er að finna í heimild frá árinu 1533 með
rithættinum furacan. Um það bil tveimur áratugum seinna skýtur það
upp kollinum með spænsku ritmyndinni huracan. Undir lok 16. aldar
birtist svo ritmyndin houragan, en núverandi ritháttur orðsins ouragan,
sem merkir sem fyrr 'forte tempéte caracteriseé par des vents d'une
grande violence', hefur verið við lýði frá byrjun 17. aldar (TLF 1992).
Árið 1555 var hið latneska verk Pedro Mártir de Anglería þýtt yfir á
ensku og mun það vera elsta heimildin um orðið í enskri tungu. Rit-
mynd orðsins er sú sama og í frumtextanum, eða furacanes. Næstu ald-
irnar er ritháttur orðsins með ýmsum hætti: furacan, furacanes (1568),
hurlecano (1617), hurricans, hericano, hurricane, harricane og harycane svo
lhAravak var á sínum tíma útbreiddasta indíánamálið í Suður- og Mið-Ameríku. Sú
grein sem var töluð á Antillaeyjum hefur einatt verið kölluð taínó eftir ættbálknum
sem bjó á Haítí þegar Spánverjar komu til eyjunnar í lok 15. aldar. Fyrstu orðin sem
Spánverjar tóku upp í mál sitt voru úr tungumálum Antillaeyjasvæðisins: aravak,
taínó og caribe. Eftir því sem landafundamenn lögðu fleiri landsvæði í Nýja heimin-
um undir spænsku krúnuna því víðar bárust orð þau sem þeir höfðu tileinkað sér úr
índíánamálum Antillaeyjasvæðisins (Buesa Oliver og Enguita Utrilla 1992:51).
17Þeir fræðimenn sem styðja fyrrnefndu kenninguna telja að orðið sé leitt af nafni
þrumuguðsins Hunrakan (eða Hurakan), 'sá einfætti', sem var dýrkaður af Maya-
indíánum í Mexíkó (Corominas og Pascual 1991-1997:429).