Skagfirðingabók - 01.01.2010, Page 125
125
HÓGLÁTUR SNILLDARMAÐUR
Þú floginn ert til fegri heima
sem fugl, er leitar hlýrri landa.
Í gegnum vonar víðu geima
er vegurinn til furðustranda.
Og hafi nokkur náð þar landi
og notið fegurð þess og gæða,
þinn hefir lærdóms elskur andi
þar öðlast rétt til hærri fræða.
Með þrá til listar þú varst fæddur,
með þroska vildir hennar njóta.
Þó værir slíkri gáfu gæddur,
þér gafst ei færi hana að móta.
En ljúft þig samt við lífið sættir
sem lagadómur væri felldur,
og hélst þinn veg, þó mörgu mættir,
sem mönnum farartálma veldur.
Að reika’ um þjóðlífs forarflóa,
í flaustri hver þar öðrum hrindir,
er stikla um rinda og stígi mjóa
og stympast æstir – sumir blindir.
Að hrasa ei, þó aðrir renni
og eigi velkjast slettum neinum,
ei geta nema göfugmenni,
sem gædd eru eðliskenndum hreinum.
Að neita fylgi sitt að selja
og sannfæring, þó hátt sé boðið,
og heldur særðan sannleik velja
en svikið álit, gulli roðið.
Að vera öllu innan handar
er auðgar kærleik samlíf manna,
ei geta nema úrvals andar,
sem elska hið góða, fagra og sanna.
En þetta flest þitt mátti megin
og meira, sem að tíminn hylur.
Þín skapgerð hér í dæmum dregin
ei dulist getur þeim, er skilur.
Þú fylgdir þessum dýru dyggðum
með dáð, er ekki bregðast vildi,
og sannleik aldrei sveikst í tryggðum,
en sóttir fram með hreinum skildi.