Skagfirðingabók - 01.01.2010, Page 126
126
SKAGFIRÐINGABÓK
Þú gafst þig lítt við lýðskrumsæði
og launa og valda sníkjusálum.
Um nafn þitt enginn styr þó stæði,
þitt starf var helgað þjóðar málum.
Þú ræktir skylduanna iðju,
er afgangs tíma nauman léði,
þó leyfðir í kyrrþey listagyðju,
sem lífs þíns æðst var draumagleði.
Þú birtir ei á stétt og stræti
það starf, en geymdir hjá þér inni,
því eigindá og yfirlæti
gat ekki samrýmst skapgerð þinni.
En vinir þínir margs nú minnast
sem merki um fjölvitshæfni þína,
og flestir, sem þér fengu að kynnast,
þér færa þökk og virðing sína.
Þó væri ei dagsett, varðst að ganga
til værðar hinstu í lands þíns skauti.
Þá kvöldsól hallast hafs að vanga
og hjúpar rúm þitt geisla skrauti,
og framhjá því ef gestur gengur,
má gefa svar, ef spyrja kynni:
Hér hvílir góður, dáinn drengur,
sem dyggur reyndist köllun sinni.
Því ljúfar kenndir löngum vakna
hjá látins gröf, í aftanskini.
En ástvinir þó sárast sakna
að sjá á bak svo dýrum vini.
Með sárum trega, en samt í hljóði
þeir signa í anda hvílu þína.
Sem minjablóm, í litlu ljóði
þar leggja hjartans kveðju sína.