Skagfirðingabók - 01.01.2010, Page 151
151
HUGLEIÐINGAR UM STAÐFRÆÐI ÞÓRÐAR SÖGU HREÐU
fjörð, en keypti Víðidalstungu 1385.
Jón Hákonarson var einhver mesti
bóka maður sinnar tíðar, eins og Flat-
eyjarbók og Vatnshyrna bera vott um,
en hann lét gera bæði þessi merku
handrit.17
Meiri líkur eru á að hér hafi lifað
munnmæli um atburði sem gerðust
hér á landi, fremur en um forsögu
Þórðar í Noregi. Margt af því sem sagt
er frá Noregsárum hans getur ekki
staðist, t.d. að hann hafi 12 ára ráðist
til hirðar Gamla konungs, og verið þá
hans djarfasti hermaður. Er líklegt að
fyrsti þáttur sögunnar sé meira og
minna tilbúningur.
Lokaorð
Niðurstaðan af þessum athugunum er
sú að Sviðgrímshólar séu í Tuma-
brekku landi, ofan við Grafargróf.
Skeggja hamar er við Grófina (Hái-
klettur og/eða Syðstiklettur).18 Garð-
urinn sem Þórhallur bóndi heyktist
niður undir, var í Miðhúsalandi. Og
haugur Össurar gæti verið þar í
grennd, ef hann er þá til.
Nöfnin Sviðgrímshólar og Skeggja-
hamar hafa eflaust verið enn við lýði
þegar Þórðar saga var skrifuð um
1350, og einnig á ritunartíma Vatns-
hyrnu um 1390. Hins vegar virðast
nöfnin vera gleymd um 1700, þegar
elstu rímur eru samdar eftir sögunni.19
Eitthvert rof verður í geymd örnefna á
þessum 300 árum, 1400–1700. Í því
sambandi má minna á það sem Björn
Jónsson á Skarðsá segir um pláguna
miklu 1495–1496; hún olli miklum
manndauða norðanlands, en Vestfirðir
sluppu:
Kom þá fátækt alþýðufólk af Vest-
fjörðum, giftir menn með konur og
börn, því fólkið vissi þar auðn bæja
fyrir norðan landið; völdu þeir um
jarðir sér til ábúðar, og er svo frá þeim
komið margt manna norðanlands.
(Annálar 1400–1800 I:75).
Björn var fæddur 1574 og hefur í æsku
sinni umgengist fólk sem hafði sannar
fregnir af þessum atburðum. Svipaður
mannfellir varð í svartadauða 1402–
1404.
Þessar niðurstöður eru settar fram
hér, án þess að tekin sé afstaða til sann-
fræði Þórðar sögu hreðu, eða hversu
góð heimild hún er um atburði sem
gerðust 400 árum áður en sagan var
skrifuð. Margt bendir til að höfund-
urinn hafi verið gagnkunnugur í
Skaga firði. Hann vinnur úr munn-
mælum sem þar gengu og sviðsetur
söguna í því umhverfi sem hann þekk-
ir vel. Hann veit að sagan nær sterkari
tökum á lesendum og áheyrendum ef
þeir sjá að frásögnin kemur vel heim
við þá staðhætti sem þeir lifa og
hrærast í. Einnig ber að hafa í huga að
munnmæli hafa lifað miklu lengur í
huga fornmanna, en meðal okkar sem
nú erum uppi. Og tíminn sem líður
frá atburðum sögunnar þar til hún er
skráð, er ekkert svo mikið lengri en
raunin er á um ýmsar aðrar Íslendinga-
sögur. Þær eru flestar ritaðar um 300
árum eftir að atburðir gerðust, og eru
17 Um Jón Hákonarson, sjá t.d. Íslenzk fornrit XIV:xl.
18 E.t.v. hefur verið litið á þessa kletta sem einn hamar, sjá mynd.
19 Jón Árni Friðjónsson (2008:132).