Tímarit hjúkrunarfræðinga - 01.10.1999, Side 66
Fréttatílkynning frá heilbrigðisdeild Háskólans á
Akureyri
Heilbrigðisdeild HA tekur nú þátt í samevrópsku verkefni sem heitir „Interactive Multimedia in
Nursing education. To improve Quality on preclinical studies“. Verkefnið er styrkt af
Evrópuráðinu sem LEONARDO DA VINCI verkefni.
Verkefnið var styrkt til tveggja ára og hófst undirbúningsvinna við það á vordögum 1998 og lýkur á
sama tíma vorið 2000. Verkefninu er stjórnað af þeim Öyvind Christiansen og Tone K. Oddvang við
Háskólann í Bodö í Noregi. Þau starfa við hjúkrunardeild Háskólans í Mo í Rana og áttu þau
upphaflegu hugmyndina að verkefninu og sóttu um styrk eftir að hafa staðfest samstarf frá fjórum
öðrum löndum.
Með í verkefninu eru svo auk Háskólans í Bodö:
* Heilbrigðisdeild HA,
* School of Nursing, Midwifery and Health Visiting, Manchester háskóla, Englandi,
* Várdhögskolan i Boden, Svíþjóð,
* Luleá sjukhus, Luleá, Svíþjóð,
* Alicante háskóli, Spáni,
* Háskólasjúkrahúsið í Alicante, Spáni og
* Rana Sykehus, Mo í Rana, Noregi.
Frá heilbrigðisdeild HA taka Ingibjörg Þórhallsdóttir og Sigríður Sía Jónsdóttir þátt í verkefninu.
Yfirmarkmiðið með verkefninu er að meta notagildi kennsluefnis á tölvutæku formi annars vegar
við kennslu hjúkrunarnema og hins vegar við endurmenntun hjúkrunarfræðinga. Norðmenn og
Svíar eru einu þátttakendurnir sem sjá um síðari hlutann en allar þjóðirnar taka þátt í mati við
hjúkrunarkennslu.
Með það í huga að útkoman úr mati á kennsluefninu verði jákvæð, þ.e. notkun á kennsluefninu skili
aukinni þekkingu til viðkomandi, er gert ráð fyrir að í framhaldi af niðurstöðum verði grundvöllur til að
þróa verkefni á tölvutæku formi sem nota megi í ölium löndunum og samræma þannig þekkingu
hjúkrunarnema og hjúkrunarfræðinga í viðkomandi löndum auk annarra Evrópulanda og gera þannig
hjúkrunarfræðingum auðveldara fyrir að starfa við hjúkrun í hinum ýmsu löndum Evrópu.
Við umsókn til Evrópuráðsins var gert ráð fyrir að öll löndin mundu meta sama námsefnið á tölvutæku
formi en við undirbúningsvinnu kom í ljós að það mundi ekki henta og varð niðurstaðan sú að við hér
við HA ákváðum að taka fyrir hjúkrun fyrir og eftir aðgerð (pre- and post op). Notað er námsefni á
geisladiski sem samið var af hjúkrunarfræðingum við Brigham Young University, College of Nursing,
Utah, og dreift er gegnum fyrirtækið Concept Media sem sérhæfir sig í námsefni á tölvutæku formi.
Síðastliðinn vetur var námsefnið notað hjá nemendahópnum í námskeiðinu hjúkrun IV þar sem farið er
í hjúkrun fyrir og eftir aðgerð. Of snemmt er að segja nokkuð til um niðurstöður en næsta vetur verður
námsefnið einnig notað og mati á þekkingu nemendanna haldið áfram.
Fyrir þá sem vilja kynna sér nánar verkefnið, þátttakendur og þjóðir þeirra sem og fylgjast með þróun
verkefnisins er heimasíða verkefnisins: http://www.ecimn.man.ac.uk
Akureyri, 30. júlí 1999
Sigríður Sía Jónsdóttir
278
Tímarit hjúkrunarfræðinga ■ 4. tbl. 75. árg. 1999